Enski boltinn

Oscar verður launahæsti leikmaður heims | Fær 160.000 pundum meira á viku en Suárez

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Brasilíumaðurinn Oscar verður launahæsti leikmaður heims ef af félagaskiptum hans til kínverska liðsins Shanghai SIPG verður.

Talið er að Oscar færi sig um set frá Chelsea til Kína í janúar en Shanghai ætlar að borga 52 milljónir punda fyrir þennan 25 ára gamla miðjumann.

Samkvæmt frétt Daily Mail ætti Oscar að eiga fyrir salti í grautinn fræga ef hann fer til Shanghai. Félagið ku ætla að borga honum 400.000 pund á viku sem gerir hann að launahæsta leikmanni heims.

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi eru launahæstu leikmenn heims en þeir fá 365.000 pund í vikulaun. Ef Oscar fer til Shanghai fær hann 35.000 pundum meira í vikulaun en þessir tveir bestu fótboltamenn heims.

Hulk er fjórði launahæsti leikmaður heims. Hann verður samt á lægri launum en Oscar, verðandi samherji hans.vísir/getty
Leikmenn fá vel borgað fyrir sína vinnu í Kína enda miklir peningar í umferð í fótboltanum þar í landi.

Shanghai virðist vera með sérlega djúpa vasa en í sumar keypti félagið brasilíska framherjann Hulk frá Zenit í Pétursborg á 46 milljónir punda.

Hulk er fjórði launahæsti leikmaður heims en Shanghai borgar honum 317.000 pund í vikulaun, 83.000 pundum minna en Oscar kemur til með að fá.

Athygli vekur að Oscar mun fá miklu hærri vikulaun en Luis Suárez, sem varð í 3. sæti í kjörinu um Gullboltann.

Suárez skrifaði í gær undir nýjan samning við Barcelona sem færir honum 240.000 pund í laun á viku. Úrúgvæinn, sem varð markakóngur Evrópu á síðasta tímabili, er ekki einu sinni á meðal 10 launahæstu leikmanna heims.

Oscar, sem kom til Chelsea frá Internacional í heimalandinu 2012, hefur ekki verið í byrjunarliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni frá því um miðjan september. Hann hefur alls leikið níu deildarleiki á tímabilinu en ekki tekist að skora.

Luis Suárez er einn af þremur bestu leikmönnum í heimi. Þrátt fyrir það er hann ekki einn af þeim 10 launahæstu.vísir/getty

Tengdar fréttir

Fréttaskýring: Það kvað vera fallegt í Kína

Miklir peningar eru komnir inn í fótboltann í Kína en liðin þar í landi hafa eytt himinháum upphæðum í leikmenn á undanförnum vikum. Kínverjar ætla sér stóra hluti á fótboltasviðinu á næstu árum.

Villas-Boas tekur við af Eriksson

Kínverska félagið Shanghai SIPG er búið að losa sig við Svíann Sven-Göran Eriksson og í hans stað hefur verið ráðinn Andre Villas-Boas.

Ronaldo hreppti Gullboltann

Cristiano Ronaldo var í kvöld valinn besti knattspyrnumaður heims í fjórða sinn á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×