Viktoría segist hafa verið á gangi fyrir utan lokaða svæðið þegar hún hrasaði í brekku og datt inn á svæðið. Í fallinu hafi hún snúið upp á fótinn á sér. Þá hafi lögreglumaður komið að henni og spurt hvort hún gæti stigið í fótinn. Hún hafi svarað því neitandi og þá hafi hún verið handtekin.
„Þeir settu mig á börur og óluðu mig niður. Lögreglumennirnir sem báru mig voru mjög þreyttir og sliguðust með mig. Sumir þeirra voru reiðir,“ sagði Viktoría. „Þess vegna fannst mér mjög ógnandi að allt mitt líf og fjör væri í höndum þessara krakka. Þetta voru allt mjög ungir lögreglumenn.“
Hún sagði að sér hefði ekki verið gefinn tími til að jafna sig í fætinum áður en hún hefðiverið handtekin. Þá sagði hún aðstæður sínar í fangaklefa ekki hafa verið góðar.
„Ég var í afskaplega köldum klefa og rökum. Mér fannst ég vera komin aftur á miðaldir í pyntingaklefa. Ég bað um teppi til að hlýja mér en ég fékk blaut teppi.“
Viktoría taldi lögreglumenn hafa verið allt að þrisvar sinnum fleiri en mótmælendur

„Stundum fannst mér eins og lögreglan væri að nota okkur sem tilraunardýr fyrir einhvers konar óeirðir eða styrjaldir. Mér fannst mér vera kastað á milli þessara sterku lögreglumanna með alvæpni og handjárn.
Dómarinn spurði hvort Viktoría hafi verið handtekin fyrr um daginn. Því játaði Viktoría.
„Ég vil gjarnan að það komi fram að ég var á svæðinu í fimmtán mínútur þegar ég var handtekin í fyrra skiptið,“ sagði Viktoría.
Lögreglumaður sem segist hafa tekið þátt í þónokkrum handtökum bar vitni í málinu. Hann sagði alla hafa fengið marg ítrekuð fyrirmæli um að fara af svæðinu.
Hann minnti að Viktoría hefði hlaupið inn fyrir svæðið og neitað að fara út af svæðinu. Hann sagði Viktoríu hafa talað um að hafa verið meidd og hafi því verið borin í börum. Þegar því var lokið hafi hún þó staðið upp og gengið upp í rútu óstudd.
Hann segir Viktoríu hvorki hafa verið beislaða eða handjárnaða, en hann muni ekki hvort öryggisólar hafi verið á börunum.
Annar lögreglumaður sem kom að handtöku hennar bar einnig vitni, en hann sagði hana hafa farið inn fyrir lokaða svæðið, hún beðin um að fara en því hafi hún neitað. Þá hafi Viktoría fengið bein tilmæli um að færa sig og hafi hún einnig neitað því. Hann sagði Viktoríu hafa neitað að færa sig og hún hafi aldrei talað um að hún væri meidd á fæti. Þegar búið var að flytja hana hafi hún staðið upp og gengið upp í rútu.
„Hún neitaði að ganga og því settum við hana á börur og fluttum hana langa leið yfir hraunið. Menn voru að misstíga sig þarna.“
Rann niður brekkuna og datt inn fyrir bandið
Eydís Lára Fransdóttir bar einnig vitni en hún sagðist hafa orðið vitni að handtöku Viktoríu. Þær hafi gengið með lokaða svæðinu og í brekku hafi hún misstigið sig. Eydís sagði Viktoríu hafa runnið niður brekkuna og dottið inn fyrir bandið. Um leið hafi lögregluþjónar komið að og handtekið hana.
Eydís sagði Viktoríu hafa dottið inn fyrir og að það hafi ekki verið ætlun hennar að fara inn á bannsvæðið. Hún segir að þegar liðið hafi á daginn hafi lögreglan hætt að bjóða fólki möguleika á því að færa sig. Það hafi bara verið handtekið.
Hún segir mótmælendur hafa haldið sig fyrir utan bannsvæðið, en lögregla og starfsmenn verktakans hafi fært borðann um.
Að mati Eydísar var meðferð lögreglu harkaleg gagnvart mótmælendum.