Innlent

„Sumir handteknir undir eins en öðrum stjakað burt“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Gunnsteinn Ólafsson og Hraunavinir boða til mótmæla við Innanríkisráðuneytið.
Gunnsteinn Ólafsson og Hraunavinir boða til mótmæla við Innanríkisráðuneytið.
Hraunavinir ætla að mótmæla því fyrir framan Innanríkisráðuneytið á morgun að jarðýtur skuli fara í gegnum svæði sem er á náttúruminjaskrá undir lögregluvernd.

Gunnsteinn Ólafsson, einn forsvarsmanna Hraunavina, segir að eftir aðfarir að friðsömum mótmælendum í dag geti þeir ekki annað en komið fram skilaboðum til ráðherra.

„Það var greinilega búið að undirbúa þessa aðgerð mjög vel, það var búið að sýna lögreglumönnum myndir af fólki og nafngreina það. Sumir voru greinilega taldir hættulegri en aðrir þannig að þeir voru handteknir strax þó svo þeir hafi ekki gert neitt af sér nema bara að sitja þarna,“ segir Gunnsteinn.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að hinir handteknu hafi virt að vettugi margítrekuð fyrirmæli lögreglu um að yfirgefa merkt vinnusvæði í Gálgahrauni. Tuttugu og fimm voru handteknir en sleppt fljótlega aftur. Níu mótmælendur mættu aftur á svæðið og héldu uppteknum hætti og voru þá handteknir öðru sinni.

 

„Já, það voru allir beðnir um að færa sig en sumir voru handteknir undir eins á meðan öðrum var bara stjakað út fyrir borðann,“ segir Gunnsteinn.

Mótmælafundurinn hefst klukkan 12:30 á morgun fyrir framan Innanríkisráðuneytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×