Innlent

Það er alvarlegur tónn í mér

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Fólk er ekki komið í bíó eða leikhús til að sjá Maríu Ellingsen, heldur sjálft sig. Því lengra sem ég fer inn í sálina á mér því nær kemst áhorfandinn eigin sál.“
"Fólk er ekki komið í bíó eða leikhús til að sjá Maríu Ellingsen, heldur sjálft sig. Því lengra sem ég fer inn í sálina á mér því nær kemst áhorfandinn eigin sál.“ Fréttablaðið/Vilhelm
Leikfélagið hennar Maríu heitir Annað svið og mér finnst ég komin á annað tilverusvið þegar ég stíg inn á vinnustað hennar við Suðurgötu í Reykjavík, sem hún deilir með tíu öðrum konum í ólíkum, skapandi verkefnum. Fegurð blasir allsstaðar við, örsmáar rúður í gluggum, rósettur í loftum og listaverk á veggjum.

Við María komum okkur vel fyrir á efri hæðinni og ég byrja á að forvitnast um helstu viðfangsefni hennar þessa dagana. „Ég var að koma heim frá Álandseyjum í fyrradag, fór þangað ásamt samstarfsfólki mínu með sýninguna Ferðalag Fönixins - um listina að deyja og fæðast á ný, sem er dansleikhúskonsert þar sem maður og kona takast á. Við frumsýndum verkið á listahátíð fyrir tveimur árum og það hefur blómstrað. Við höfum áður farið með það til Færeyja og Finnlands og það snertir fólk djúpt hvar sem við komum.“

Sögur þriggja kvenna

„Verk spretta gjarnan upp úr þeirri lífsreynslu sem maður er að fara í gegnum hverju sinni. Þannig varð verkið MammaMamma til þegar við Charlotta Boving eignuðumst fyrstu börnin okkar 35 ára gamlar og svo fæddust hugmyndir að tveimur ólíkum verkum þegar ég fór í gegnum skilnað,“ segir María sem skildi við eiginmann sinn Þorstein J. Vilhjálmsson fyrir fjórum til sex árum, eins og hún orðar það. Annað verkið er Ferðalag Fönixins en hitt er Augun mín. Augun þín, um þrjár skáldkonur sem uppi voru á öndverðri nítjándu öld. Ein þeirra er Agnes Magnúsdóttir sem var tekin af lífi í Vatnsdalshólum og María túlkaði í myndinni Agnes. Hinar eru Guðný frá Klömbrum og Skáld Rósa.

„Mér fannst alltaf að sögur þessara þriggja kvenna ættu að tala saman þannig að þegar ég var að koma út úr þessum skilnaði hugsaði ég: nú er tíminn til að fanga þetta efni og tengja saman þessar þrjár konur sem allar gengu í gegnum ástarsorg en brugðust ólíkt við; Agnes drepur manninn og missir höfuðið, Guðný sligast af harmi á níu mánuðum og skrifar ljóð fram á síðasta dag sem er eins og hjartalínurit að fjara út. Svo er það Skáld-Rósa sem berst og dettur en kemst á lappir, slítur sig frjálsa og fer sína leið,“ lýsir María. Hún kveðst hafa unnið þetta verk með Snorra Frey Hilmarssyni, leikmyndateiknara sem setur hlutina í sögulegt samhengi og svo lærimeistara sínum frá New York University, Kevin Kuhlke, tilraunaleikhúss-leikstjóra.

„Við lögðum lokahönd á verkið úti í Arabíu um daginn, af öllum stöðum,“ segir María glaðlega. „New York háskólinn í Abú Dabí bauð mér að halda fyrirlestur í leiklistardeildinni og okkur Kevin að prófa verkið í vikulangri höfundarsmiðju með leiklistarnemum deildarinnar. Þar í eyðimörkinni lifnuðu þessar íslensku skáldkonur við - og einn karl, sem leikur þrjú hlutverk. Þannig að nú er þetta verk tilbúið til uppfærslu.“

Er ekki texti í því? „Jú, það er svo skemmtilegt. Ferðalag Fönixins var orðlaust og alveg opið til túlkunnar en þetta leikrit er fullt af orðum, bæði í bundnu máli og óbundnu. Það er skrifað af okkur Kevin á ensku en Þórarinn Eldjárn þýðir það og ljóðin eru auðvitað ort á íslensku. Næsta verkefni að fjármagna það og koma því á fjalir,“ segir María og heldur áfram. „Guðný hefur leitað á mig lengi og það er góð tilfinning að hafa fundið henni farveg. Hún var amma Haraldar Níelssonar prófasts sem var langafi minn.“

Leiklistin ástríða

María er líka að leika þessa dagana í lögguseríunni Hrauninu, framhaldi af Hamrinum sem sýndur var í sjónvarpinu fyrir fáum árum. Seríurnar eru eftir Sveinbjörn I. Baldvinsson og í leikstjórn Reynis Lyngdal. „Ég leik tæknideildarlögreglu sem mætir á staðinn, mjög mikinn töffara og blóðferlasérfræðing,“ segir María brosandi og upplýsir að tökurnar fari fram á Snæfellsnesi og í nágrenni Reykjavíkur.

Hún segir leiklistina hafa verið henni algera ástríðu frá því hún var unglingur. Þó hafi hún reynt að streitast á móti því hún hafi verið hrædd um að leiklist væri of léttvæg. „Það er alvarlegur tónn í mér. Mér finnst að það sem ég geri í þessu lífi þurfi að vera mikilvægt og skipta máli og var mikið að spá í að verða læknir eða jafnvel prestur. En svo komst ég að því að leikhúsið er á svipuðum slóðum því það er, þegar best er á kosið, bæði læknandi, vekjandi og umbreytandi og maður er alltaf með lífið sjálft í höndunum.“

Svo lengi sem þú leikur ekki glæpakvendi, segi ég hugsandi.

„Ég lék morðingja þegar ég lék Agnesi en ég hugsa að margar konur geti séð sjálfar sig í henni og fundið blóðbragðið sem hún var með í munninum þó þær fari ekki í það að myrða neinn. Hún rís upp gegn óréttlæti og ofbeldi og hefnir sín. Ég hugsa alltaf: Fólk er ekki komið í bíó eða leikhús til að sjá Maríu Ellingsen, heldur sjálft sig. Því lengra sem ég fer inn í sálina á mér því nær kemst áhorfandinn eigin sál. Í leikhúsinu getur fólk fengið nýtt sjónarhorn á líf sitt, skilið sjálft sig betur, fengið huggun eða fundið leiðir til að ná vopnum sínum á einhvern hátt.“

Við erum ekki guð

Þú nefndir prestinn. Ert þú trúuð kona? „Já, ég er bæði trúuð og almennt andlega sinnuð. Ég hef tengt mig við kristna trú, stúderað búddisma og ástundað jóga frá unglingsárum. Pabbi er mjög andlega sinnaður, opinn, fordómalaus og mikill pælari og það hefur skilað sér í því að ein systir mín er búddisti og yngstu systkini mín sem eru tvíburar eru í jógafræðunum. Bróðir minn var meira að segja munkur í hindúaklaustri í tuttugu ár.“

Hafði langafi þinn þessi áhrif á ykkur?

„Ég held það. Það er varla hægt að vera afkomandi Haraldar Níelssonar án þess að það hafi sterk áhrif á andlegt líf manns. Maður hugsar sig ekki í miðju alheimsins heldur verður meðvitaður um að maður er aðeins lítill hluti af einhverju stærra og magnaðra samhengi. Við erum ekki guð. Mér finnst mikilvægt að halda í þá auðmýkt gagnvart tilverunni. Fyrir utan að það væri dálítið mikið álag að vera guð.“ segir María brosandi.

María stýrði barnastarfi Dómkirkjunnar í nokkur ár og skrifaði kennsluefni fyrir barnastarf þjóðkirkjunnar. „Mér finnst mjög dýrmætt að fá að miðla því til barna að það er yfir oss vakað – eins og langafi hefði sagt – og kenna þeim að þakka fyrir það sem við höfum, biðja um það sem við þurfum og biðja fyrir öðrum, það tengir mann við þetta stóra samhengi sem maður er hluti af. Við förum í gegnum lífið með öðrum.“

Þessi umræða leiðir hugann að persónulegum högum Maríu. Skyldi hún hafa fundið annan mann?

„Nei, ég er í þeirri ótrúlegu aðstöðu að vera bara á lausu,“ segir hún og hlær. „Ég er stundum spurð hvernig á því standi. Ég get eiginlega ekki svarað því nema með því að það hefur tekið tíma að vinna úr þessari lífsreynslu. Ég er svolítið gamaldag og fer djúpt í hlutina. En ég lofaði mér því að þegar ég væri komin í gegnum sorgina yrði ég ekki bitur, heldur með opið hjarta. Mér finnst það hafa tekist og ég finn fyrir auðmýkt og þakklæti fyrir ferðalagið, reynsluna og uppskeruna. Það er flókið að vera manneskja og enn flóknara fyrir tvær manneskjur að ganga í takt. En það er á sama tíma skemmtileg áskorun og eitt það mest þroskandi í lífinu svo ég vona sannarlega að ég verði svo gæfusöm að eignast sálufélaga á ný til að vaða með yfir ár og strauma lífsins.“

Stóra, stóra verkefnið

María á tvær stelpur. Láru og Kristínu „Lára er fiðrildi með risastórt hjarta og krullur og snert af einhverfu. Það er búið að vera gefandi verkefni að læra hennar tungumál og finna leiðir til að hjálpa henni að blómstra. Ég er ótrúlega þakklát fyrir það,“ segir María einlæg og heldur áfram. „Það kom í ljós um leið og hún fæddist að það væri eitthvað ekki í lagi, hún grét hástöfum fyrsta árið sitt, stanslaust. Það var svakaleg eldskírn fyrir nýbakaða móður. Ég var þrjátíu og fimm ára og það var eins gott að ég var komin til þroska, þá gat ég staðið í lappirnar. Svo eignaðist ég Kristínu rétt fyrir fertugt og hún er að verða tíu ára, efnileg, skemmtileg og hjartahlý stúlka.“

Ertu semsagt að segja mér að þú sért að verða fimmtug?

„Já, við mæðgurnar eigum allar stórafmæli á næstunni. Kristín verður tíu ára núna í nóvember og við Lára eigum afmæli í janúar, hún verður fimmtán ára og ég fimmtug. Við ætlum að fara til Afríku, á Kilimanjaró og í safarí um áramótin með tveimur vinafjöskyldum af þessu tilefni. Það verður gaman. Ég fékk Afríku á heilann þegar ég var lítið barn, eins og ég hefði átt þar heima einhverntíma í fyrra lífi. Ég hélt alltaf að ég yrði læknir sem ynni í Afríku við að bjarga heiminum en varð svo bara leikari á Íslandi. Stundum hef ég sagt að Lára sé mín Afríka því uppeldi hennar er stóra, stóra verkefnið mitt í lífinu.“

María á líka son sem hún að sögn fékk í kaupbæti.

„Hann Tómas minn Þorsteinsson er 24 ára fótboltastrákur og er að ljúka námi í verkfræði. Tómas var fyrsta barnið mitt og bjó mig undir framhaldið og við erum miklir vinir. Þá erum við mamma hans í hestamennsku saman og hann getur oft náð okkur báðum í sama símtalinu!” Hestaáhuginn hefur fylgt henni frá því hún man eftir sér. „Lengi vel hugsaði ég að ég gæti bara farið í stakar hestaferðir og sleppt stússinu sem fylgir því að eiga hest en svo lét ég drauminn rætast og eignaðist hest fyrir fimm árum og stússið er æðislegt. Það hefur verið ótrúlega gefandi að eiga sinn eigin hest og ná samspili við hann. Svo er hundurinn Hneta á heimilinu. Hún hefur verið mikill þerapíuhundur fyrir Láru og passar að hún fari ekki alltof langt inn í sig.

Markmiðið er að efla fólk

Náttúruvernd er stór partur af lífi Maríu. Hún er einn af stofendum Framtíðarlandsins sem fóstrar verðmæti Íslands og er hugmyndaveita fyrir samfélagslega nýsköpun, og formaður stjórnar þess. Auk þess sem hún er í stjórn Auðlindar náttúrusjóðs sem Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur stofnaði. „Guðmundur Páll heitinn var mér dýrmætur lærimeistari og kenndi mér að það er ekki nóg að þykja vænt um náttúru Íslands í hjarta sér, maður verður að verja hana því hún er ómálga. Hann sagði að örlagaspurningin væri sú hvort við yrðum græðgði að bráð eða settumst loks á þúfuna og biðum eftir sálinni í okkur og samhæfðum hana sál landsins.“ segir María og kveðst aðspurð hafa verið úti í Gálgahrauni nýlega og það hafi verið yfirþyrmandi reynsla.

Næsta sumar bíður nýtt ævintýri Maríu. Hún hefur tekið að sér að leiða fimmtán norræn ungmenni í gegnum leiklistarferðalag sem hefst á Svalbarða. „Já, alls verður 75 unglingum af öllum Norðurlöndunum skipt í fimm hópa sem ferðast og kynnast sirkus, músík, sjónlist, dansi og leiklist og mætast í Austur-Finnlandi þar sem búum til risastóra loka sýningu með þeim.“

En eru ekki ísbirnir á Svalbarða?

„Jú,ég held að maður fari ekki út í póstkassa öðru vísi en með byssu. Ég þarf kannski að fara að koma mér upp byssuleyfi.“

Ekki eru öll verkefni upptalin enn sem María er að fást við því hún fetar í fótspor Gunnars Eyjólfssonar leikara og kennir ræðumennsku. Vinnur bæði á eigin vegum og hjá Háskólanum í Reykjavík. „Ég fór upphaflega af stað með námskeið til að styrkja konur í að koma fram en víkkaði það fljótlega út,“ upplýsir hún. „Fólk býr yfir svo mikilli reynslu og þekkingu en vantar tækni til að miðla hugmyndum sínum á áhrifamikinn hátt. Það er virkilega gefandi að sjá fólk stíga út úr sviðsskrekk og finna styrk sinn.“



En er ekki erfitt að vera að vasast í svona mörgu? „Þetta er í raun allt af sama meiði,“ svarar María. „Markmiðið er að efla fólk og miðla ljósi. Þegar ég er að kenna er ég bæði að koma fram og leikstýra. Byrja á að standa fyrir framan áhorfendur og svo sendi ég þá upp í pontu. Ég hef alltaf notið þess að kenna og þetta er tækifæri til að halda hnífunum sínum beittum og láta gott af sér leiða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×