Innlent

Ráðherra kallar mótmælendur á fund sinn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir mun kalla fulltrúa náttúruverndarsamtaka á fund ásamt fulltrúum frá Garðabæ og Vegagerðinni.
Hanna Birna Kristjánsdóttir mun kalla fulltrúa náttúruverndarsamtaka á fund ásamt fulltrúum frá Garðabæ og Vegagerðinni.
Fjöldi náttúru­verndar­samtaka hefur í opnu bréfi óskað eftir neyðarfundi með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innan­ríkisráðherra þar sem í alvarleg átök stefndi milli mótmælenda og starfsmanna verktakafyrir­tækisins ÍAV í Gálgahrauni.

Í bréfinu til Hönnu Birnu, sem Skúli Bjarnason hæstaréttarlögmaður skrifar undir, segist hann búast við fundarboði frá innan­ríkis­ráðherra. Bréfið endar á orðunum: „Hafðu hemil á Vegagerðinni áður en illa fer.“

Hanna Birna segist ítrekað hafa hitt fulltrúa þessara ólíku sjónarmiða í sumar.

„Á þessum fundum í sumar kom skýrt fram að of langt væri á milli sjónarmiða til að ná sáttum. Ráðherra getur ekki, þegar fyrir liggur framkvæmdaleyfi í framhaldi af löngu lögbundnu ferli, frestað eða stöðvað slíkar framkvæmdir án þess að eiga á hættu að kalla yfir ríkið stórkostlegar bótakröfur,“ segir Hanna Birna.

Hönnu Birnu finnst eðlilegast að fulltrúar Hraunavina fundi með fulltrúum Vegagerðarinnar.

„En fyrst að fyrirhugaður fundur hjá þeim í gær gekk ekki upp er ekkert nema sjálfsagt að leiða þessa aðila saman aftur. Ég mun boða til fundar með fulltrúum Vegagerðarinnar, Garðabæjar og Hraunavina fyrir helgi,“ segir Hanna Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×