Innlent

Krefja Hönnu Birnu um gögn vegna eyðileggingar í Gálgahrauni

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Samtökin ítreka kröfur sínar um að framkvæmdir verði tafarlaust stöðvaðar.
Samtökin ítreka kröfur sínar um að framkvæmdir verði tafarlaust stöðvaðar. Mynd/GVA
Náttúruverndarsamtökin fjögur sem höfðuðu mál gegn Vegagerðinni og kröfðust þess að framkvæmdin við Gálgahraun vegna lagningu nýs Álftanesvegar yrði dæmd ólögmæt, hafa krafið innanríkisráðherra og Samgöngustofu um upplýsingar um samskipti og ákvarðanatöku vegna Gálgahrauns.

Náttúruverndarsamtökin fjögur, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir krefjast þess að fá aðgang að öllum gögnum sem varða undirbúning aðgerðar þeirrar sem fram fór í Gálgahrauni mánudaginn 21. október síðastliðinn.

Samtökin krefjast aðgangs að öllum gögnum sem snúa að ákvörðunartöku um umfang og markmið aðgerða og þeirrar eyðileggingar sem unnin hefur verið á hrauninu.

Þau segja vinnuvélar hafa markað slóða undir lögregluvernd í fyrirhugað vegstæði vegna lagningar Álftanesvegar.

Samtökin fjögur krefjast þess að fá afhent öll gögn er varða samskipti ráðuneytsins við Vegagerðina, lögreglu og verktaka vegna hinnar umfangsmiklu lögregluaðgerðar sem fram fór sama dag.

Þá vilja þau fá gögn um það hverjir tóku ákvörðun um aðkomu og umfang lögregluaðgerðanna.

Samtökin krefjast jafnframt gagna sem snúa að aðkomu innanríkisráðherra og ráðuneytisins að þeirri ákvörðun að undirrita verksamning í júlí síðastliðinn. Þau ítreka jafnframt fyrri kröfu sínar um að framkvæmdir verði tafarlaust stöðvaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×