Innlent

Hraunavinir skora á almenning að ganga til mótmæla

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hraunavinir standa hér fyrir framan vinnuvélarnar á Gálgahrauni.
Hraunavinir standa hér fyrir framan vinnuvélarnar á Gálgahrauni. Fréttablaðið/GVA
Umhverfisverndunarsinnarnir Hraunavinir eru hvergi nærri af baki dottnir í baráttu sinni um Gálgahraunið. Nú skorar hópurinn á almenning að fjölmenna til mótmæla í Gálgahraunið á morgun klukkan 12.30. Að sjálfsögðu snúa mótmælin að því að andæfa eyðileggingu hraunsins og segja Hraunavinir í yfirlýsingu um efnið að fólk þurfi að sjá eyðilegginguna sem fer nú fram á svæðinu.

„Nú er að duga eða drepast,“ segir jafnframt í tilkynningunni. „Ljóst er að einn af þeim stöðum sem fer undir veginn er álfakletturinn Ófeigskirkja.“ Í tilkynningunni er vísað í Ófeigskirkju sem tákns í baráttunni.

„Loforð um að þyrma honum verða svikin,“ segja Hraunavinir. „Við töpuðum orrustu þann 21. október. En við getum unnið stríðið. Nú er að dreifa þessari áskorun á póstlistum, heimasíðum og facebook.“

Hraunavinir hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu vegna mótmæla sinna. Það vakti mikla athygli er sjónvarpsmaður í hópnum, Ómar Ragnarsson, ásamt fleirum var handtekinn og sögðu sig hafa verið beitta ofbeldi af yfirvaldinu í atganginum. Framkvæmdirnar í Gálgahrauni hafa verið kallaðar óbætanlegt skemmdarverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×