Innlent

Gerir hlé á framkvæmdum í ósnertu hrauni

Kristján Hjálmarsson skrifar
Náttúruverndarsamtök hafa mótmælt lagninu nýs Álftanesvegar um Gálgahraun.
Náttúruverndarsamtök hafa mótmælt lagninu nýs Álftanesvegar um Gálgahraun.
Vegagerðin mun gera hlé á framkvæmdum í Gálgahrauni næstu sjö til tíu daga á meðan vinnuhópur leitar lausna í deilum náttúruverndarsamtaka og Vegagerðarinnar.

Þetta varð niðurstaða á fundi innanríkisráðherra með Vegagerð, fulltrúum Garðarbæjar og náttúruverndarsamtaka sem lauk rétt í þessu. Enn á eftir að skipa í vinnuhópinn.

„Við lögðu upp með að ná sáttum á fundinum og þetta er skref í þá átt,“ segir Gunnsteinn Ólafsson, tónlistarmaður og stjórnarmaður í Hraunavinum.

Deilur hafa staðið um lagningu nýs Álftanesvegar um Gálgahraun og hafa náttúruverndarsamtök meðal annars truflað framkvæmdir Vegagerðarinnar.

Uppfært kl. 15.32:

Vegagerðin mun ekki gera hlé á framkvæmdum við Álftanesveg næstu sjö til tíu daga heldur munu framkvæmdir halda áfram eftir helgi. Verktakinn mun hins vegar ekki vinna í ósnertu hrauni á þessum tíma heldur einbeita sér að vinnu við aðra verkþætti utan þess kafla vegarins, að því er segir í tölvupósti frá G. Pétri Matthíassyni upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar. 

Þá segir hann að ekki hafi verið ákveðið að stofna vinnuhóp. Ráðherra hafi falið Vegagerðinni að ræða framangreinda breytingu á tilhögun framkvæmdarinnar við verktakann og kynna fyrir fulltrúum náttúruverndarsamtaka í næstu viku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×