„Það er verið að leggja drög að því að slá upp búðum,“ sagði Ómar Ragnarsson. Hann, ásamt félögum í Hraunavinum, stöðvaði framkvæmdir í Gálgahrauni í gær.
Framkvæmdum í hrauninu er mótmælt af náttúruverndarástæðum. Lögreglan kom tvívegis á vettvang, í seinna skiptið var grafa Íslenskra aðalverktaka fjarlægð af vettvangi.
Í yfirlýsingu frá Vegagerðinni kom fram að framkvæmdum yrði ekki slegið á frest vegna dómsmáls sem Hraunavinir hafa höfðað gegn Vegagerðinni.
Gunnsteinn Ólafsson, einn forsvarsmanna Hraunavina, sagði að mótmælin myndu halda áfram í dag og að svæðið hefði verið vaktað í nótt. Ekki er útilokað að hópurinn slái upp tjaldbúðum eins og Ómar nefndi.
„Það er ljóst að tjónið lendir á Vegagerðinni,“ sagði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, spurður um afleiðingar mótmælanna. Óljóst er hvort vinna á svæðinu geti hafist í dag vegna mótmæla.
Íhuga að slá upp tjaldbúðum í Gálgahrauni
Valur Grettisson skrifar
