Innlent

"Augljóst dæmi um óhóflegar aðgerðir og valdahroka"

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Fjöldi fólks var handtekið og borið út af vinnusvæðinu í Gálgahrauni þann 21. október síðastliðinn, en aðeins er hluti þeirra ákærður fyrir að mótmæla framkvæmdunum Vegagerðarinnar.

Þetta kemur fram í Reykjavík vikublaði sem kom út í dag. Ekki er vitað hvort fleiri ákærur verði gefnar út. Tugir manna sem mótmæltu framkvæmdunum voru bornir útaf vinnusvæðinu og sumir settir í járn og í fangaklefa. Ómar Ragnarsson var meðal þeirra en hann sætir ekki ákæru.

Skúli Bjarnason, lögfræðingur Hraunavina segir ákærurnar vott um valdahroka lögreglu.

„Það gefur auga leið að þeir voru búnir að ná markmiðum sínum með því að leggja veginn. Það dugði alveg að stjaka þessu fólki til hliðar og ekki var þörf á frekari aðgerðum. Að keyra þetta fólk til Reykjavíkur og læsa það inni í fangaklefa, og kóróna það svo með því að gefa út ákærur á hendur því, er náttúrlega augljóst dæmi um óhóflegar aðgerðir og valdahroka sem liggur þar að baki.“

Jón HB Snorrason, saksóknari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Reykjavík Vikublað að ekki sé ákært fyrir mótmælin. Fólk hafi rétt til þess að mótmæla, en eigi að hlýða lögreglu, og vísar í nítjándu grein lögreglulaga þar sem almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×