Innlent

"Kæran er út í hött"

Sjö konur og tveir karlar hafa verið ákærð fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu í október á síðasta ári, þegar þau neituðu að færa sig úr Gálgahrauni er Vegagerðin hugðist hefja þar framkvæmdir við að leggja nýjan veg.

Fjöldi fólks var handtekið og borið út af vinnusvæðinu í Gálgahrauni 21. október síðastliðinn og voru sumir settir í járn og fangaklefa. Ómar Ragnarsson var meðal þeirra sem handteknir voru í október en hann sætir ekki ákæru. 

Í Reykjavík vikublaði sem kom út í dag segir Jón H.B. Snorrason, saksókari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að ekki sé ákært fyrir mótmælin sem slík. Fólk hafi rétt til þess að mótmæla, en eigi að hlýða lögreglu.

Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir er ein ákærðu.  

„Kæran er alveg út í hött. Að fólk geti ekki mótmælt friðsamlega án þess að lögreglan sé send á mann er fáránlegt. Ekki nóg með það heldur er manni stungið í einangrunarklefa og síðan kallaður fyrir dóm. Mér finnst eins og ég búi í lögregluríki,“ segir Sveinbjörg.

Málið verður tekið fyrir í héraðsdómi Reykjaness næstkomandi þriðjudag.

„Við erum auðvitað með lögfræðing og munum mæta í héraðsdóm. Við verðum bara að sjá hvernig þetta fer.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.