Innlent

"Kæran er út í hött"

Sjö konur og tveir karlar hafa verið ákærð fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu í október á síðasta ári, þegar þau neituðu að færa sig úr Gálgahrauni er Vegagerðin hugðist hefja þar framkvæmdir við að leggja nýjan veg.

Fjöldi fólks var handtekið og borið út af vinnusvæðinu í Gálgahrauni 21. október síðastliðinn og voru sumir settir í járn og fangaklefa. Ómar Ragnarsson var meðal þeirra sem handteknir voru í október en hann sætir ekki ákæru. 

Í Reykjavík vikublaði sem kom út í dag segir Jón H.B. Snorrason, saksókari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að ekki sé ákært fyrir mótmælin sem slík. Fólk hafi rétt til þess að mótmæla, en eigi að hlýða lögreglu.

Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir er ein ákærðu.  

„Kæran er alveg út í hött. Að fólk geti ekki mótmælt friðsamlega án þess að lögreglan sé send á mann er fáránlegt. Ekki nóg með það heldur er manni stungið í einangrunarklefa og síðan kallaður fyrir dóm. Mér finnst eins og ég búi í lögregluríki,“ segir Sveinbjörg.

Málið verður tekið fyrir í héraðsdómi Reykjaness næstkomandi þriðjudag.

„Við erum auðvitað með lögfræðing og munum mæta í héraðsdóm. Við verðum bara að sjá hvernig þetta fer.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.