Erlent

183 dæmdir til dauða í Egyptalandi

Bjarki Ármannsson skrifar
Mohamed Badie tekur til máls fyrir rétti í síðasta mánuði.
Mohamed Badie tekur til máls fyrir rétti í síðasta mánuði. Vísir/AP
Dómstóll í Egyptalandi staðfesti í dag dauðadóm yfir 183 liðsmönnum Bræðralags múslima. Þeim er gert að sök að hafa gert árás á lögreglustöð í Minya héraði árið 2013.

BBC greinir frá. Upphaflega var réttað yfir 683 og hafði dómari í málinu úrskurðað að taka ætti þá alla af lífi. Réttarhöldin voru harðlega gagnrýnd og hafa refsingarnar verið mildaðar í mörgum tilfellum. 496 þeirra sem upphaflega voru dæmdir hafa nú verið sýknaðir. Mohamed Badie, æðsti trúarleiðsögumaður Bræðralags múslima, er hins vegar meðal þeirra sem fengu dauðadóm sinn staðfestan í dag.

Lögmenn sakborningana sögðu þessi réttarhöld „farsa“ og líklegt þykir að málinu verði áfrýjað til hæstaréttar.

Yfirvöld í Egyptalandi hafa tekið hart á íslamistum í landinu frá því að Mohammed Morsi , fyrrum forseta, var steypt af stóli í júlí 2013. Morsi er félagi í Bræðralagi múslima sem var við völd í landinu fyrir byltingu en hefur nú verið bannað af nýjum yfirvöldum og  úrskurðað hryðjuverkasamtök.

Talið er að ný ríkisstjórn Egyptalands, sem herinn kom til valda, hafi nú dæmt um þúsund pólítíska andstæðinga sína síðan í desember.


Tengdar fréttir

Morsi-sinnar boða mótmæli

Bræðralag múslima hvetur stuðningsfólk Múhameds Morsis til að fjölmenna út á götur Egyptalands til mótmæla gegn aðgerðum hersins, sem steyptu Morsi af stóli á miðvikudag.

Egyptaland: Herinn skaut á óbreytta borgara við bænahald

Yfir 30 manns hafa látist og vel yfir eitt þúsund eru sárir vegna átaka í Egyptalandi í kjölfar þess að herinn steypti forseta landsins, Mohamed Morsi, af stóli á miðvikudaginn. Í meðfylgjandi frétt sjást myndir af því þegar herinn skaut á almenna borgara við bænahald.

Andlegur leiðtogi Bræðralagsins handtekinn í Kaíró

Andlegur leiðtogi Múslímska Bræðralagsins í Egyptalandi var handtekinn í nótt. Leiðtoginn, Mohammed Badie var tekinn höndum í íbúð í höfuðborginni Kaíró en fleiri hundruð meðlimir í bræðralaginu hafa verið handteknir síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×