Innlent

Morsi-sinnar boða mótmæli

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Stuðningsmenn Morsis með mynd af honum. Á enni hans hefur verið skrifað: "Al Sisi svikari".
Stuðningsmenn Morsis með mynd af honum. Á enni hans hefur verið skrifað: "Al Sisi svikari". Mynd/AP
Bræðralag múslima hvetur stuðningsfólk Múhameds Morsis til að efna til mótmæla í dag  mótmæla gegn aðgerðum hersins, sem steyptu Morsi af stóli á miðvikudag.

Margir helstu leiðtogar Bræðralagsins hafa verið handteknir og Morsi sjálfur situr í stofufangelsi. Á annan tug helstu samstarfsmanna hans eru sömuleiðis sagðir vera í stofufangelsi, en ekki er vitað hvar þeir eru niðurkomnir.

Herinn segist hafa farið að vilja fólksins þegar Morsi var sviptur völdum. Um síðustu helgi, þegar ár var liðið frá því Morsi tók við forsetaembættinu, flykktust menn milljónum saman út á götur til að krefjast afsagnar hans. 

Bræðralagið sakar herforingjana hins vegar um valdarán og boðar „dag höfnunar”. Á föstudögum koma múslimar saman til bæna í moskum landsins þar sem landsmálin eru iðulega rædd, og halda gjarnan að því loknu út á göturnar til að koma skoðunum sínum á framfæri.

„Við neitum að taka þátt í neinum verkum valdaránsstjórnarinnar,” segir í yfirlýsingu frá Bræðralaginu, sem hvetur þó fólk til að mótmæla aðeins með friðsamlegum hætti.

Bræðralagið fordæmir jafnframt að bæði sjónvarpsstöð samtakanna og dagblaðs, sem þau  gefa út, hafi verið lokað ásamt þremur öðrum sjónvarpsstöðvum, sem staðið hafa við bakið á Morsi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×