Erlent

Meira en 200 manns ákærðir vegna blóðbaðsins í Kaíró

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Stuðningsmenn Morsis láta engan bilbug á sér finna.
Stuðningsmenn Morsis láta engan bilbug á sér finna. Nordicphotos/AFP
Aðalsaksóknari Egyptalands hefur farið fram á að Múhamed Badie, leiðtogi Bræðralags múslima, verði handtekinn ásamt níu öðrum forystumönnum samtakanna. Þeir eru sakaðir um að hafa hvatt til ofbeldis, og það hafi leitt til átakanna í Kaíró á mánudag sem kostuðu meira en 50 manns lífið.

Þá hafa meira en 200 manns verið ákærðir vegna blóðbaðsins á mánudag og sakaðir um beina aðild að átökunum. Flestir þeirra eru liðsmenn Bræðralags múslima og stuðningsmenn Múhameds Morsi forseta, sem herinn steypti af stóli í síðustu viku. 

Enn eru deildar meiningar um upphaf átakanna. Herinn fullyrðir að vopnaðir einstaklingar hafi byrjað að skjóta á herinn, sem var að gæta höfuðstöðva sérsveita í Kaíró. Stuðningsmenn Morsis standa hins vegar fast á því að herinn hafi átt upptökin.

Múhamed Kamel Amr, utanríkisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, sagði í viðtali við CNN í morgun að Morsi sé hafður á öruggum stað þar sem vel sé hugsað um hann. Morsi hefur verið í stofufangelsi síðan  honum var steypt af stóli, en Amr segist ekki vita nákvæmlega hvar hann er hafður í haldi.

Bráðabirgðastjórnin hefur boðað endurskoðun stjórnarskrárinnar fyrir lok þessa árs og bæði þing- og forsetakosningar snemma á næsta ári. Bræðralag múslima hefur mótmælt þessari ákvörðun og krefst þess að Morsi fái forsetaembættið á ný.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×