Erlent

Bræðralag múslima lætur ekki undan

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hermenn fyrir utan forsetahöllina í Kaíró.
Hermenn fyrir utan forsetahöllina í Kaíró. Mynd/AP
Bræðralagsmúslima stendur fast við kröfu sína um að Múhamed Morsi fái forsetaembættið á ný. Samtökin leggja þó áherslu á að öll mótmæli fari fram með friðsamlegum hætti.

„Við viljum halda áfram friðsamlegu andófi okkar gegn hinu blóðuga valdaráni hersins, sem gert var í andstöðu við stjórnskipunarlegt lögmæti,” segir í yfirlýsingu frá Bræðralaginu í dag. „Við treystum því að friðsamlegur og almennur vilji fólks muni sigrast á valdbeitingu og kúgun.”

Bræðralagið, sem hefur mikið fjöldafylgi í Egyptalandi, hefur neitað að starfa með bráðabirgðastjórninni, sem nú reynir að koma á ró í landinu og boðar bæði endurskoðun stjórnarskrárinnar og kosningar til þings og forseta.

Leiðtogar Bræðralagsins hafa margir verið handteknir og Morsi situr enn í stofufangelsi. Meira en fimmtíu manns létu lífið í átökum á mánudaginn, flestir þeirra stuðningsmenn Morsis.

Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur fleiri leiðtogum Bræðarlagsins, þar á meðal Múhamed Badie, sem er æðsti andlegi leiðtogi samtakanna. Ekki er vitað hvar hann er niðurkominn.

Föstumánuðurinn ramadan hófst í vikunni og þá flykkist fólk út á götur á kvöldin. Hátíðarstemmning ríkir fram á nótt en lítið þarf út af að bera til að upp úr sjóði, þegar ástandið er svo viðkvæmt sem nú er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×