Erlent

Nærri 700 dæmdir til dauða á einu bretti

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Aðstandendur hinna dæmdu harmi þrungnir eftir að niðurstaða dómarans hafði verið kunngerð.
Aðstandendur hinna dæmdu harmi þrungnir eftir að niðurstaða dómarans hafði verið kunngerð. Vísir/AP
Egypskur dómari dæmdi í morgun 683 stuðningsmenn Bræðralags múslima til dauða, þar á meðal Mohammed Badí, leiðtoga Bræðralagsins.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem þessi sami dómari, Saíd Jússef, dæmir hundruð manna til dauða á einu bretti. 

Þann 24. mars kvað hann upp hliðstæðan dauðadóm yfir 528 manns eftir skammvinn réttarhöld sem hafa verið gagnrýnd fyrir hroðvirknisleg vinnubrögð.

Þetta eru einir stórtækustu dauðadómar sögunnar, í það minnsta á síðari tímum. 

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja úrskurð dómarans afkáralegan, enda kveður dómarinn þarna upp dauðadóma eftir að hafa aðeins einu sinni haldið réttarfund um málið.

„Málið hefur gert út um trúverðugleika egypska réttarkerfisins,” hefur arabíski fréttavefurinn Al Jazeera eftir Mohammed Elmessery frá Amnesty International.

Einungis 77 þeirra, sem dæmdir voru til dauða í morgun, voru reyndar viðstaddir dómsuppkvaðninguna. Hinir, sem ekki voru viðstaddir, eiga sjálfkrafa rétt á endurupptöku málsins.

Jafnframt staðfesti dómarinn í morgun einungis 37 þeirra dauðadóma, sem hann kvað upp í mars síðastliðnum. Hinum dómunum breytti hann í ævilangt fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×