Erlent

Bræðralag múslima hafnar tímaplani hersins

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vilja Morsi aftur í forsetaembættið.
Vilja Morsi aftur í forsetaembættið. Nordicphotos/AFP
Bræðralag múslima hefur í dag hafnað áætlun bráðabirgðastjórnar landsins, sem boðar endurskoðun á stjórnarskrá landsins fyrir árslok og síðan bæði þingkosningar og forsetakosningar á fyrri hluta næsta árs.

Bráðabirgðastjórnin birti áætlun sína í gær eftir blóðbaðið fyrir utan bækistöðvar sérsveita hersins í Kaíró, þar sem meira en 50 manns létu lífið. Fjöldamorðin urðu til þess að auka enn á spennuna í landinu, fáeinum dögum eftir að herinn steypti Múhamed Morsi forseta af stóli og gerðu yfirdómara hæstaréttar, Adlí Mansúr, að forseta í staðinn.

Samkvæmt áætluninni, sem Mansúr tilkynnti um í gær, er meiningin að fá tveimur nefndum það verk að endurskoða stjórnarskrána, sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu í desember á síðasta ári.

Önnur nefndin verður skipuð dómurum og fær það hlutverk að leggja til breytingar, en  hin nefndin, skipuð fulltrúum stjórnmálaafla og fjöldahreyfinga, fær tillögur hinnar nefndarinnar til meðferðar og umsagnar. Niðurstaðan verður svo borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu ekki síðar en í nóvember.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×