Enski boltinn

Solskjær baðst afsökunar: Frammistaðan var Manchester United ekki sæmandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var ekki upplitsdjarfur eftir útreiðina sem hans menn fengu á Goodison Park í dag. Everton lék á als oddi og vann 4-0 sigur á slöku liði United.

„Frá upphafsflautinu gekk allt á afturfótunum hjá okkur. Ég vil biðja stuðningsmennina afsökunar. Þeir voru þeir einu með United-merkið á brjóstinu sem geta borið höfuðið hátt eftir leikinn. Við getum það ekki,“ sagði Solskjær í leikslok.

Norðmaðurinn var vægast sagt ósáttur með frammistöðu sinna manna í dag. United hefur núna tapað sex af síðustu átta leikjum sínum.

„Everton var betra en við á öllum sviðum. Það er svo margt sem við þurfum að laga til að ná góðum úrslitum. Hæfileikar, einir og sér, hafa aldrei verið nóg,“ sagði Solskjær.

„Við stóðum okkur ekki í stykkinu. Þessi frammistaða var Manchester United ekki sæmandi.“

Á miðvikudaginn kemur Manchester City í heimsókn á Old Trafford. Ljóst er að United þarf að spila miklu betur en í dag ef ekki á illa að fara gegn Englandsmeisturunum.

„Við fáum frábært tækifæri til að bæta upp fyrir þetta tap á miðvikudaginn,“ sagði Solskjær.


Tengdar fréttir

Gylfi: Ég smellhitti boltann

Gylfi Þór Sigurðsson kom mikið við sögu í stórsigri Everton á Manchester United, 4-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×