Enski boltinn

Solskjær baðst afsökunar: Frammistaðan var Manchester United ekki sæmandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var ekki upplitsdjarfur eftir útreiðina sem hans menn fengu á Goodison Park í dag. Everton lék á als oddi og vann 4-0 sigur á slöku liði United.

„Frá upphafsflautinu gekk allt á afturfótunum hjá okkur. Ég vil biðja stuðningsmennina afsökunar. Þeir voru þeir einu með United-merkið á brjóstinu sem geta borið höfuðið hátt eftir leikinn. Við getum það ekki,“ sagði Solskjær í leikslok.

Norðmaðurinn var vægast sagt ósáttur með frammistöðu sinna manna í dag. United hefur núna tapað sex af síðustu átta leikjum sínum.

„Everton var betra en við á öllum sviðum. Það er svo margt sem við þurfum að laga til að ná góðum úrslitum. Hæfileikar, einir og sér, hafa aldrei verið nóg,“ sagði Solskjær.

„Við stóðum okkur ekki í stykkinu. Þessi frammistaða var Manchester United ekki sæmandi.“

Á miðvikudaginn kemur Manchester City í heimsókn á Old Trafford. Ljóst er að United þarf að spila miklu betur en í dag ef ekki á illa að fara gegn Englandsmeisturunum.

„Við fáum frábært tækifæri til að bæta upp fyrir þetta tap á miðvikudaginn,“ sagði Solskjær.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.