Gylfi með mark og stoðsendingu í stórsigri Everton á United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi horfir á eftir boltanum í netið.
Gylfi horfir á eftir boltanum í netið. vísir/getty

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt mark og lagði upp annað þegar Everton kjöldró Manchester United, 4-0, í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta var fimmta tap United á útivelli í röð en það hefur ekki gerst frá árinu 1981. Liðið hefur tapað sex af síðustu átta leikjum sínum í öllum keppnum.

Everton byrjaði leikinn af miklum krafti og komst yfir á 13. mínútu þegar Richarlison klippti boltann laglega í netið.

Fimmtán mínútum síðar skoraði Gylfi með góðu skoti fyrir utan vítateig. Þetta var hans þrettánda deildarmark á tímabilinu og fimmta mark hans gegn United á ferlinum. Staðan var 2-0 í hálfleik.

Á 56. mínútu jók vinstri bakvörðurinn Lucas Digne forystuna í 3-0. Og átta mínútum síðar stakk Gylfi boltanum inn á Theo Walcott sem skoraði fjórða og síðasta mark Everton. Þetta var fimmta stoðsending Gylfa í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Með sigrinum komst Everton upp í 7. sæti deildarinnar. Liðið hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum.

United er hins vegar í 6. sætinu, tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti.

Viðtal við Ole Gunnar Solskjær


Viðtal við Marco Silva


Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.