Enski boltinn

„Röng ákvörðun að ráða Solskjær“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Byrinn í segl Solskjærs er ekki jafn mikill og í upphafi stjóratíðar hans hjá Manchester United.
Byrinn í segl Solskjærs er ekki jafn mikill og í upphafi stjóratíðar hans hjá Manchester United. vísir/getty
Jermaine Jenas, fyrrverandi landsliðsmaður Englands og núverandi álitsgjafi hjá BBC, segir að forráðamenn Manchester United hafi tekið ranga ákvörðun þegar þeir réðu Ole Gunnar Solskjær sem knattspyrnustjóra liðsins til frambúðar.

Solskjær tók við United skömmu fyrir jól eftir að José Mourinho var látinn taka pokann sinn. United vann tíu af fyrstu ellefu leikjum sínum undir stjórn Norðmannsins sem var verðlaunaður með þriggja ára samningi við félagið.

Að undanförnu hefur hins vegar gefið á bátinn og United hefur tapað fimm af síðustu sjö leikjum sínum og er dottið út úr ensku bikarkeppninni og Meistaradeild Evrópu.

„Þetta var röng ákvörðun. Ráðningin á Solskjær var byggð á tilfinningum. Þetta var ekki úthugsuð og rökrétt ákvörðun,“ sagði Jenas.

Hann bætti við að United þyrfti að hætta að reyna að finna annan Sir Alex Ferguson og losa sig úr viðjum fortíðarinnar.

„Það sem United þarf að gera er að fjarlægjast þessa „Manchester United leið“. Það sem Ferguson gerði var einstakt og United hefur átt erfitt með að feta sömu braut þrátt fyrir að vera með færa menn við stjórnvölinn,“ sagði Jenas.

„Þegar Pep Guardiola kom til Manchester City reyndi hann ekki að gera það sama og [Roberto] Mancini og [Manuel] Pellegrini gerðu til að vinna Englandsmeistaratitilinn. Hann kom inn í félagið og gerði það sem hann vildi gera. Jürgen Klopp gerði það sama hjá Liverpool. Það er það sem United þarf. Þeir þurfa að finna sér nýja sjálfsmynd. Mourinho reyndi að gera það en án árangurs.“

United er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti. United mætir Everton í hádeginu á morgun.


Tengdar fréttir

United ætlar að taka hart á rasisma gegn Young á Twitter

Ashley Young varð fyrir kynþáttaníði á Twitter eftir tap Manchester United og Barcelona í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Manchester United ætlar að bregðast hart við málinu á meðan Kick It Out samtökin spurðu Twitter hvenær samfélagsmiðlaforritið ætlaði að taka á kynþáttaníði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×