Enski boltinn

Mourinho horfir til fyrrverandi lærisveina sinna og vill fá Willian til United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Willian var góður í vetur þrátt fyrir dapurt gengi Chelsea.
Willian var góður í vetur þrátt fyrir dapurt gengi Chelsea. vísir/getty
Beðið er eftir því að José Mourinho verði ráðinn knattspyrnustjóri Manchester United en vandræði komu upp í samningamálum í gær þar sem Chelsea á enn réttinn að nafni Portúgalans.

Það stöðvar samt ekki ensku blöðin í að orða hann við hina og þessa leikmenn en götublaðið The Sun greinir frá því í dag að Mourinho vilji fá brasilíska vængmanninn Willian á Old Trafford.

Willian, sem var framan af vetri einn af sárafáum leikmönnum Chelsea sem var líkur sjálfum sér, er einnig sagður áhugasamur um að endurnýja kynnin við Mourinho á Old Trafford.

Þessi 27 ára gamli Brassi verður þó ekki ódýr en talið er að hann gæti kostað United allt að 60 milljónum punda. Chelsea borgaði 30 milljónir fyrir Willian þegar hann kom frá rússneska liðinu Anzhi Makhachkala árið 2013.

Willian var eftir tímabilið kosinn bæði besti leikmaður Chelsea af stuðningsmönnum og leikmönnum.

Hann er ekki eini leikmaðurinn sem Mourinho er sagður vilja fá frá Chelsea því serbneski miðjumaðurinn Nemanja Matic er einnig orðaður við Manchester United vegna yfirvofandi komu José Mourinho.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×