Erlent

Skutu geimflaug á loft og lentu henni aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi mynd var tekin yfir níu mínútna tímabil og sýnir hvernig flauginni var skotið á loft og einnig lendinguna.
Þessi mynd var tekin yfir níu mínútna tímabil og sýnir hvernig flauginni var skotið á loft og einnig lendinguna. Vísir/EPA
Fyrirtækið SpaceX skaut í nótt ómannaðri eldflaug út í geim með ellefu gervihnetti innanborðs. Falcon-9 flaug var skotið á loft frá Flórída í Bandaríkjunum og tókst að koma öllum gervihnöttunum á sporbraut um jörðina. Það sem meira er, þá tókst að lenda flauginni aftur, uppréttri. Það er í fyrsta sinn sem slíkt tekst og er áliti risaskref í að endurnýta eldflaugar til geimskota, sem myndi spara gífurlega fjármuni.

Flauginni er seinna meir ætlað að flytja geimfarar til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Um er að fyrsta geimskot SpaceX frá því að eldflaug fyrirtækisins sprakk í loft upp skömmu eftir flugtak.

Sjá einnig: Space X flaug sprakk í loft upp

Hér má sjá það ferli að skjóta Falcon 9 flaug á loft og lenda henni aftur.Mynd/SpaceX
Frekari upplýsingar um Falcon-9 flaugina má finna hér á vef SpaceX. Áður hefur verið reynt að lenda flaugunum á pramma út á hafi, en að þessu sinni var flauginni lent á landi. Henni var skotið í 200 kílómetra hæð áður en henni var snúið við og henni lent.

Elon Musk, eigandi SpaceX, sagði á blaðamannafundi í nótt að þessari tilteknu eldflaug verði ekki skotið aftur út í geim.

„Ég hugsa að við munum halda þessari á jörðinni, þar sem hún er einstök og sú fyrsta sem okkur tekst að lenda aftur,“ sagði Musk. Hann sagði að eldsneyti verði bætt á flaugina og kveikt aftur á eldflaugahreyflunum svo að hægt sé að sjá hvort hún virki ekki örugglega enn að fullu.



Lending Falcon 9 flaugarinnar. Útsending frá geimskotinu. Eldflauginni er skotið á loft á 23:00 og lendir hún aftur eftir rétt rúmar níu mínútur.

Tengdar fréttir

Google fjárfestir í SpaceX

Google og fjárfestingafélagið Fidelity hafa fjárfest fyrir samtals um einn milljarð dollara í geimferðafyrirtæki Elon Musk.

Geimskotið tókst en lendingin ekki

Byltingarkennd tilraun SpaceX til að lenda eldflaug aftur eftir geimskot, á pramma fljótandi á Atlantshafinu tókst ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×