Viðskipti erlent

Google fjárfestir í SpaceX

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Elon Musk stofnaði SpaceX.
Elon Musk stofnaði SpaceX. VÍSIR/AP/AFP
Google og fjárfestingafélagið Fidelity hafa fjárfest fyrir samtals um einn milljarð dollara í SpaceX, geimferðafyrirtæki Elon Musk. Þetta hafa talsmenn SpaceX staðfest.

Fjárfesting Google og Fidelity tryggir þeim rétt um tíu prósenta hlut í SpaceX, sem þýðir að verðmæti fyrirtækisins sé metið á um 10 milljarða dollara, jafnvirði 1.319 milljarða íslenskra króna.

Á kynningarfundi síðastliðinn föstudag sagði Musk frá áætlunum SpaceX um að koma háhraða internettengingu til allra horna heimsins. Til þess ætlar fyrirtækið að þróa fjögur þúsund smáa gervihnetti sem eiga að hringsóla jörðina í 1.200 kílómetra hæð.

Samkvæmt The Information, sem greindi fyrst frá kaupunum á mánudag, er tilgangurinn sá að tryggja þróun á þessum gervihnöttum SpaceX. Google hefur lengi haft það að markmiðið að nettengja sem flesta á jörðinni og fellur fjárfestingin að þeim markmiðum.

Á kynningarfundinum sagðist Musk telja að það tæki um fimm ár að byggja upp gervihnattanetið og að heildarkostnaður verkefnisins væru um tíu milljarðar dala.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×