Erlent

Tókst næstum því að lenda geimflaug

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá geimskotinu í gær.
Frá geimskotinu í gær. Vísir/AP
Vísindamenn SpaceX fyrirtækisins virðast hafa verið hársbreidd frá því að takast að lenda eldflaug sem skotið hefði verið upp í geim í gær. Falcon 9 eldflaugin sveif til lendingar á pramma út á hafi, en lenti of harkalega og féll á hliðina og sprakk í loft upp.

Þetta er önnur tilraun fyrirtækisins sem er í eigu Elon Musk.

Með því að ná að lenda eldflaugum og nota þær aftur, má draga gífurlega úr kostnaði við geimskot. Í viðtali við Bloomberg í mars sagði Musk að verði tæknin að raunveruleika muni geimskot kosta um tvö til þrjú hundruð þúsund dali í stað um 61 milljónar dala, um 8,4 milljarðar króna. Þannig myndi SpaceX breyta gangi geimskota í heiminum.

Á myndbandinu hér að neðan má sjá lendingu Falcon 9 eldflaugarinnar á prammanum. Bersýnilega sést að ekki vantaði mikið upp á til að lendingin hefði heppnast. Hins vegar fellur eldflaugin á hliðina og springur í tætlur. Um aðra tilraun fyrirtækisins er að ræða og á vef Business Insider segir að næsta tilraun verði líklega í júní.

Fleiri myndbönd frá geimskotum og tilraunum SpaceX má sjá á Youtube-síðu fyrirtækisins.


Tengdar fréttir

Skjóta geimflaug á loft

Fyrirtækið SpaceX mun skjóta geimflaug til Alþjóða geimstöðvarinnar klukkan 11:20.

Google fjárfestir í SpaceX

Google og fjárfestingafélagið Fidelity hafa fjárfest fyrir samtals um einn milljarð dollara í geimferðafyrirtæki Elon Musk.

Geimskotið tókst en lendingin ekki

Byltingarkennd tilraun SpaceX til að lenda eldflaug aftur eftir geimskot, á pramma fljótandi á Atlantshafinu tókst ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×