Erlent

Geimskotið í Rússlandi heppnaðist

Samúel Karl Ólason skrifar
Um borð í farinu eru rúm 2,4 tonn af eldsneyti, súrefni, vatni, mat og öðrum birgðum.
Um borð í farinu eru rúm 2,4 tonn af eldsneyti, súrefni, vatni, mat og öðrum birgðum. Vísir/EPA
Rússar skutu á loft geimflaug snemma í morgun, sem ætlað er að flytja birgðir til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar (ISS). Tvær síðustu tilraunir hafa misheppnast, en geimskotið í morgun virðist hafa heppnast fullkomlega. Hið ómannaða birgðafar sem skotið var á loft mun tengjast ISS á sunnudaginn.

Um borð í farinu eru rúm 2,4 tonn af eldsneyti, súrefni, vatni, mat og öðrum birgðum.

Geimflauginni var skotið á loft frá Baikonur í Kasakstan. Síðast var geimflaug skotið þaðan í apríl, en starfsmenn Geimstofnunar Rússlands, Roscosmos, misstu stjórn á farinu, sem brann upp yfir Kyrrahafi. Síðasta sunnudag skaut fyrirtækið SpaceX geimflaug á loft, en hún sprakk í loft upp eftir rúmlega tveggja mínútna flug.

Enn sem komið er eru Rússarnir þeir einu sem geta komið mönnuðum geimförum til ISS og stendur til að senda þrjá geimfara til stöðvarinnar þann 22. júlí. Nú eru tveir Rússar og einn Bandaríkjamaður um borð í ISS.

Deilur vesturveldanna við Rússland vegna Úkraínudeilunnar virðast þó ekki hafa haft áhrif á samstarf NASA og Roscosmos. SpaceX vinnur að þróun eldflauga og geimfara sem hægt væri að nota til að skjóta mönnuðum geimförum á loft frá Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Skjóta geimflaug á loft

Fyrirtækið SpaceX mun skjóta geimflaug til Alþjóða geimstöðvarinnar klukkan 11:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×