Erlent

Málaliðar Wagner handsömuðu og börðu rússneskan ofursta

Samúel Karl Ólason skrifar
Eigandi Wagner Group segir rússneska hermenn hafa lokað málaliða sína inn á jarðsprengjusvæði og skotið á þá. Yevgeny Prigozhin birti í gær myndband af rússneskum undirofursta sem hafði verið fangaður af málaliðunum.
Eigandi Wagner Group segir rússneska hermenn hafa lokað málaliða sína inn á jarðsprengjusvæði og skotið á þá. Yevgeny Prigozhin birti í gær myndband af rússneskum undirofursta sem hafði verið fangaður af málaliðunum. Telegram

Málaliðar Wagner Group lentu á dögunum í skotbardaga við rússneska hermenn nærri Bakhmut. Bardaginn endaði með því að málaliðarnir handsömuðu rússneskan undirofursta, börðu hann og þvinguðu hann til að játa að hafa skipað mönnum sínum að skjóta á málaliðana.

Umræddur undirofursti heitir Roman Venevitin og leiðir 72. stórfylki rússneska hersins. Á myndbandi sem málaliðar Wagner tóku upp, segir Venevitin, með brotið nef, að hann hafi verið ölvaður og skipað mönnum sínum að skjóta á bílalest Wagner.

Það hafi hann gert vegna þess hve illa honum væri við málaliðana og baðst hann afsökunar á myndbandinu.

Starfsmenn fyrirtækis Yevgeny Prigozhin, sem rekur Wagner Group, birti myndbandið á netinu í gærkvöldi. Sjá má þýdda útgáfu af því í spilaranum hér að neðan.

Þetta er í kjölfar þess að Prigozhin kvartaði sáran yfir því að þegar menn hans voru að yfirgefa Bakhmut, eftir að hafa varið um tíu mánuðum í að ná borginni úr höndum Úkraínumenn, hefðu þurft að grafa sig í gegnum jarðsprengjusvæði sem rússneski herinn hafi lagt fyrir aftan víglínu málaliðahópsins.

Sjá einnig: Prigozhin lýsir yfir sigri í Bakhmut, aftur

Undanfarnar vikur og mánuði hefur Prigozhin verið mjög harðorður í garð forsvarsmanna rússneska hersins. Hann hefur sakaði þá um ýmis klúður tengd stríðsrekstri Rússa í Úkraínu og um að grafa vísvitandi undan Wagner. Þar að auki hefur hann sakað þá um landráð.

Auðjöfurinn rússneski hefur verið hávær á samfélagsmiðlum með þessa gangrýni sína og hafa fregnir borist af því að hann hafi reitt valdamikið fólk í Moskvu til reiði.

Sjá einnig: Tóku eigin málaliða af lífi með sleggju

Prigozhin er kallaður „kokkur Pútíns“ þar sem hann rak veitingastað í St. Pétursborg sem Pútin sótti reglulega.

Prigozhin hefur einnig gert umfangsmikla samninga við rússneska ríkið og framleiðir meðal annars mat fyrir skólabörn og hermenn í Rússlandi. Hann er einnig sagður fjármagna rekstur Internet Research Agency sem er gjarnan þekkt sem tröllaverksmiðja Rússlands. Þá er hann eftirlýstur í Bandaríkjunum vegna afskipta IRA af forsetakosningunum 2016.

Wagner málaliðahópurinn er umsvifamikill í Afríku og í Mið-Austurlöndum, þar sem málaliðar hans hafa verið sakaðir um ýmis ódæði.


Tengdar fréttir

Úkraínu­menn þjarma að Wagner-lausum Rússum í Bak­hmut

Úkraínski herinn þjarmar að Rússum við og í kringum borgina Bakhmut. Rússar lýstu sig sigurvegara í baráttunni um Bakhmut í síðasta mánuði eftir ein blóðugust átökin frá upphafi innrásarinnar. Þrýstingur Úkraínumanna er hluti af gagnsókn sem er að taka á sig mynd.

Óttast ó­sigur Rússa og varar við byltingu heima fyrir

„Við erum í stöðu þar sem við getum einfaldlega glatað Rússlandi,“ segir Yevgeniy Prigozhin, stofnandi og stjórnandi Wagner-málaliðahópsins, í viðtali við Konstantin Dolgov, einn þekktasta herbloggara Rússlands.

Segir ekkert eftir í Bakhmut nema fallna Rússa

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir Bakhmut ekki í höndum Rússa. Hann segir bæinn vera dauðan og að þar væru margir fallnir. Þetta sagði Selenskí er hann var spurður út í yfirlýsingar Rússa um að Bakhmut væri í þeirra höndum eftir margra mánaða átök.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.