Erlent

Pútín vill jólavopnahlé

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, í símanum í dag.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, í símanum í dag. AP/Mikhail Klimentyev

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur skipað Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra sínum, að koma á einhliða vopnahléi í hádegi á morgun til miðnættis á laugardagskvöld (7. janúar), eða í 36 klukkustundir. Það er eftir að æðsti klerkur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar lagði slíkt vopnahlé til.

Uppfært 16:18 - Úkraínumenn hafa hafnað vopnahléstillögu Pútíns og segja hana hræsni. Flestir Úkraínumenn héldu upp á jólin í desember líkt og við Íslendingar. Þá gerðu Rússar umfangsmiklar árásir á Úkraínu.

Í yfirlýsingu frá Kreml segir að margir íbúa á átakasvæðunum í Úkraínu aðhyllist rétttrúnaðarkirkjuna og kalla Rússar eftir því að þessu fólki verði gert kleift að halda upp á jólin.

Sjá einnig: Pyntingar á pyntingar ofan

Eftir að Kirill fyrsti, æðstiklerkur rétttrúnaðarkirkjunnar opinberaði ákall sitt eftir vopnahléi fyrr í dag tóku Úkraínumenn ekki vel í það. Kirill hefur verið ötull stuðningsmaður innrásarinnar í Úkraínu og hefur meðal annars haldið því fram að syndir þeirra hermanna sem deyja í Úkraínu séu afmáðar.

Sjá einnig: Rússar sagðir stefna á aðra herkvaðningu

Mykhailo Podolyak, ráðgjafi Vólódímírs Selenskís, forseta Úkraínu, segir í tísti að það séu ekki Úkraínumenn sem hafi ráðist á annað land og þeir drepi ekki óbreytta borgara. Það eina sem Úkraínumenn geri sé að berjast gegn innrásar her.

Pútín geti fengið sitt tímabundna vopnahlé með því að kalla her sinn frá Úkraínu.

Ólíklegt er að Úkraínumenn muni virða þetta vopnahlé, ef af því verður, en ráðamenn í Úkraínu hafa ekki tjáð sig um skipun Pútíns enn. Rússar eru í varnarstöðu víðast hvar á víglínunum í Úkraínu, þó þær hafi lítið hreyfst undanfarnar vikur.

Fyrrverandi talskona Selenskís segir að Rússar hafi verið að myrða og pynta Úkraínumenn í meira en tíu mánuði og nú vilji þeir fá vopnahlé til að halda upp á jólin.

Úkraínumenn segjast hafa fellt fjölmarga rússneska hermenn á undanförnum dögum og þar á meðal mögulega nokkur hundruð kvaðmenn í árás í Makívka á nýársnótt.

Sjá einnig: Farsímanotkun sögð hafa leitt til einnar mannskæðustu árásar stríðsins

Bleytuveður og meðfylgjandi leðja er sögð hafa komið niður á gagnárásum Úkraínumanna en kólnað hefur síðustu daga og er von á frekara frosti.

Talið er að með frostinu geti hersveitir Úkraínumanna gert frekari árásir á Rússa. Vert er að taka fram að lítið er þó staðfest í þessum efnum og Úkraínumenn hafa lítið sem ekkert gefið upp um ætlanir sínar eða raunverulega getu til umfangsmikilla árása á Rússa.

Blaðamaður Financial Times í Úkraínu vitnar í sérfræðing í málefnum Rússlands sem segir að að hluta til snúist vopnahlé Pútíns um árásina í Makívka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×