Erlent

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Rússar sagðir stefna á aðra herkvaðningu

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, er að undirbúa þjóð sína fyrir langvarandi átök í Úkraínu og Rússar eru sagðir vera að undirbúa aðra herkvaðningu. Bakhjarlar Úkraínumanna vinna að því að senda ný vopnakerfi til landsins en forðast enn að senda skriðdreka.

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn skjóta úr fallbyssu á víglínunni í Úkraínu. AP/Evgeniy Maloletka

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, er að undirbúa þjóð sína fyrir langvarandi átök í Úkraínu og Rússar eru sagðir vera að undirbúa aðra herkvaðningu. Bakhjarlar Úkraínumanna vinna að því að senda ný vopnakerfi til landsins en forðast enn að senda skriðdreka.

Kreml birti um áramótin myndband af Pútín ræða við meinta hermenn. Þar sagði hann meðal annars að Rússar gætu ekki gefið eftir og þyrftu að berjast. Þá bætti hann við að enn væri mikið verk fyrir höndum.

Í grein New York Times segir að Pútín sé að mestu hættur að reyna að skýla almenningi í Rússlandi frá stríðinu og sé þess í stað að undirbúa þjóðina og herinn fyrir langvarandi átök.

Hann er meira stressaður og mun minna jákvæður,“ segir sérfræðingur um Pútín í samtali við New York Times. „Maður greinir ákveðna taugaveiklun hjá honum og vilja til kveðja alla mögulega hermenn í herinn til að ná markmiðum hans.“

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hitti hóp hermanna um áramótin.AP/Mikhail Klimentyev

NYT hefur eftir embættismönnum í Bandaríkjunum og sérfræðingum að Rússar virðist hafa dregið úr markmiðum sínum í Úkraínu. Áhersla sé nú lögð á að ná fullum yfirráðum á Donetsk-héraði í austurhluta Úkraínu.

Samhliða því hafi ráðamenn í Rússlandi unnið að því að koma í veg fyrir opinbera reiði í Rússlandi vegna innrásarinnar og undiröldu óánægju. Yfirvöld í Rússlandi hafa barið niður alla opinbera andspyrnu gegn innrásinni en einhverjir sérfræðingar telja mögulegt að óánægja gæti sprungið á sjónarsviðið seinna meir.

Einn bendir til að mynda á innrás Sovétríkjanna í Afganistan á níunda áratug síðustu aldar og segir að reiðin vegna mannfalls þar hafi ekki orðið ljós á fyrsta ári stríðsins.

Mikhail Vinogradov sagði í samtali við NYT að mögulega væru yfirvöld búin að brjóta alla andstöðu niður eða reiðin sé að byggjast upp og að hún gæti jafnvel leitt til mótmæla seinna meir.

Mikið mannfall

Rússar hafa ekkert sótt fram svo máli skiptir í marga mánuði en útlit er fyrir að með því herkvaðningunni í fyrra og með því að senda tugi þúsunda kvaðmanna á víglínurnar í Úkraínu, á meðan aðrir fá þjálfun í Rússlandi, hafi Rússum tekist að koma jafnvægi á víglínurnar í Úkraínu.

Þær hafa lítið hreyfst frá því Rússar hörfuðu frá vesturbakka Dniproár og Kherson-borg í nóvember. Með því undanhaldi styttu Rússar einnig víglínurnar í Úkraínu töluvert og styrktu þar með varnir sínar.

Sjá einnig: Far­sím­a­notk­un sögð hafa leitt til einn­ar mann­skæð­ust­u á­rás­ar stríðs­ins

Þó nokkrar vikur eru síðan embættismenn á Vesturlöndum byrjuðu að tala um að áætlað væri að fleiri en hundrað þúsund rússneskir hermenn hefðu særst eða fallið í innrásinni í Úkraínu.

Þó tölurnar séu eflaust ýktar segjast Úkraínumenn hafa fellt 810 rússneska hermenn á síðasta sólarhring og hafa þeir sjaldan haldið því fram að þeir hafi fellt svo marga Rússa.

Í basli í Bakhmut

Allar líkur eru á að síðan þá hafi mannfall Rússa verið gífurlega mikið og þá sérstaklega í kringum Bakhmut í Donetsk-héraði. Þar hafa Rússar lengi reynt að brjóta varnir Úkraínumanna á bak aftur og hefur sú viðleitni verið leidd af rússneska auðjöfrinum Yevgeny Prigozhin og málaliðum hans í Wagner Group.

Prigozhin tengist Vladimír Pútín, forseta Rússlands, nánum böndum og hefur lengi verið kallaður „kokkur Pútíns“. Hann hefur aukið umsvif sín í rússneskri pólitík í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og eru uppi vangaveltur um að hann vilji stilla sér upp sem mögulegum arftaka Pútíns.

Auðjöfurinn hefur lagt mikið púður í að reyna að ná Bakhmut og sýna að einkaher hans sé fær um að sækja fram í Úkraínu þó rússneski herinn geti það ekki.

Auðjöfurinn birti nýverið myndband þar sem hann reyndi að útskýra vandræði Rússa í Bakhmut.

Í myndbandinu lýsti hann hverju húsi í Bakhmut sem virki og sagði að ef Rússar brytu sér leið í gegnum eina varnarlínu Úkraínumanna lentu þeir á strax á annarri. Varnarlínurnar væru of margar.

„Ef við segjum fimm hundruð, höfum við örugglega ekki rangt fyrir okkur. Hverja tíu metra má finna nýja varnarlínu,“ sagði Prigozhin.

Prigozhin, sem tengist yfirvöldum í Rússlandi ekki á neinn formlegan hátt, hefur ráðið málaliða beint úr fangelsum Rússlands í massavís og boðið þeim frelsi í skiptum fyrir sex mánaða þjónustu í Úkraínu. Ríkismiðlar Rússlands hafa sagt frá því í morgun að auðjöfurinn hafi frelsað fyrstu fangana/málaliðana.

RIA fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, segir til að mynda að fangarnir hafi fengið náðun. Miðillinn segir að um 24 fanga sé að ræða en Prigozhin segir að margir þeirra  hafi endað bakvið lás og slá fyrir mistök eða vegna eðlis þeirra. Þeir hafi fæðst sem stríðsmenn.

Myndband af honum ræða við hóp málaliða sem sagðir eru hafa lokið hálfs árs þjónustu var einnig birt á netinu.

Úkraínumenn vissir um herkvaðningu

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi sínu á þriðjudagskvöld að yfirvöld í Rússlandi ætluðu að efna til nýrrar herkvaðningar. Með því vildu Rússar snúa vörn í sókn í Úkraínu. Úkraínumenn hafa um nokkuð skeið haldið því fram að til stæði að loka landamærum Rússlands og efna til annarrar umfangsmikillar herkvaðningar.

Í frétt Reuters er haft eftir Selenskí að hann og hans fólk efist ekki um að stjórnendur Rússlands muni beita öllum ráðum og nota allt það fólk sem er í boði til að breyta stöðunni í Úkraínu og í það minnsta reyna að draga átökin á langinn.

„Við verðum að koma í veg fyrir það. Við erum að undirbúa okkur. Hryðjuverkamennirnir verða að tapa. Allar tilraunir til nýrra sókna verða að misheppnast,“ sagði Selenskí.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu.EPA/Sergey Dolzhenko

Meintar ekkjur kalla eftir herkvaðningu

Pútín sagði í síðasta mánuði ekki væri tilefni til annarrar herkvaðningar. Lítt þekkt samtök sem eiga að vera skipuð ekkjum hermanna lýsti því þó yfir á þriðjudaginn að fara ætti í almenna herkvaðningu. Milljónir manna gætu þjónað í hernum.

Í færslu samtakanna á samfélagsmiðlum stóð að herkvaðning væri nauðsynleg og banna ætti mönnum á tilteknum aldri að yfirgefa landið.

„Eiginmenn okkar dóu við að verja þessa menn en hverjir eiga að verja okkur ef þeir flýja,“ stóð í færslunni. Hundruð þúsunda manna flúðu Rússland þegar efnt var til fyrstu herkvaðningarinnar.

Í frétt rússneska miðilsins Moscow Times segir að lítið sé vitað um þessi samtök og engar upplýsingar hafi fundist um hverjir skipa þau. Miðillinn segir þessi „samtök“ hafa stungið upp kollinum í desember og hafi unnið með ríkisstjórn Rússlands.

Úkraínumenn hafa einnig orðið fyrir miklu mannfalli í stríðinu.Getty/Oleksii Chumachenko

Senda ný vopnakerfi til Úkraínu

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tilkynnti Selenskí í gær að Frakkar ætluðu að senda AMX-10 (brynvarin farartæki) til Úkraínu til að hjálpa Úkraínumönnum. AMX-10 má flokka sem „létta skriðdreka“ en þar er um að ræða brynvarið farartæki sem er ekki á beltum en með fallbyssu sambærilega skriðdrekum og er hannað til hraðra skyndiárása.

FT segir að Frakkar ætli einnig að senda Bastion brynvarin farartæki til Úkraínu en þau eru hönnuð til að flytja hermenn.

Í kjölfar yfirlýsingar Frakka í gær sagði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, í gær að verið væri að skoða að senda Bradley bryndreka til Úkraínu. Bradley bryndrekar hafa verið í notkun í Bandaríkjaher frá miðjum níunda áratug síðustu aldar og eiga Bandaríkjamenn þúsundir þeirra.

Þetta eru þó ekki skriðdrekar, eins og Úkraínumenn hafa lengi beðið bakhjarla sína um. Til dæmis hafa þeir beðið um Abrams skriðdreka frá Bandaríkjunum og Leopard skriðdreka frá Þýskalandi. Það hefur þó ekki verið vilji til þess hingað til að gefa Úkraínumönnum slíka skriðdreka.

Sérstaklega miklum þrýstingi hefur verið beint að yfirvöldum Þýskalands varðandi Leopard-skriðdreka.

Tages Spiegel sagði frá því í dag að ákvörðun Frakka og vangaveltur Bandaríkjamanna auki þann þrýsting. Þá er haft eftir heimildarmönnum miðilsins úr ríkisstjórn Olafs Scholz, kanslara, að rætt verði við ráðamenn í Bandaríkjunum og Frakklandi um áframhaldandi stuðning við Úkraínumenn.

Þá liggur ekki fyrir hve marga AMX-10 og Bradley bryndreka verið er að skoða að senda til Úkraínu.

Kanal 13 birti í morgun meðfylgjandi myndband af frönskum hermönnum nota AMX-10.

Herforinginn Mark Hertling, sem stýrði á árum áður herafla Bandaríkjanna í Evrópu og barðist í Bradley í fyrra Íraksstríðinu, segir að þessir hergagnaflutningar myndu líklegast reynast Úkraínumönnum gífurlega vel. Bæði AMX-10 og Bradley þurfi lítið viðhald, sé auðvelt að reka og ráði vel við ótroðnar slóðir.

Þar að auki nýtist hergögnin vel gegn rússneskum skriðdrekum og bryndrekum. Það sé allt Úkraínumönnum mikilvægt.

Vilja stöðva flæði dróna til Úkraínu

Árásir Rússa á innviði í Úkraínu og þá sérstaklega orkuver og dreifikerfi landsins hafa haldið áfram. Rússar hafa mikið notast við sjálfsprengidróna frá Íran sem kallast Shahed-136 við þessar árásir. Bandaríkjamenn eru sagðir leita leiða til að gera Íran erfiðara að framleiða þessa dróna en framleiðslan virðist byggja á tækni frá Vesturlöndum.

Sjá einnig: Selenskí segir drónaárásir Rússa verða langvarandi

Árásir þessar, og stríðið í heild, hafa haft mikil og neikvæð áhrif á hagkerfi Úkraínu en efnahagsráðuneyti landsins greindi í dag frá því að landsframleiðsla hefði dregist saman um tæpan þriðjung á síðasta ári.

Í frétt CNN segir að Úkraínumenn hafi tekið Shahed-136 dróna í sundur og sýnt fram á að af þeim 52 hlutum sem dróninn er smíðaður úr, virðist fjörutíu þeirra vera framleiddir af þrettán fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Hinir hlutanir eru sagðir framleiddir í Kanada, Sviss, Japan, Taívan og Kína.

Íran hefur um árabil verið beitt viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum en ekki liggja fyrir upplýsingar um að forsvarsmenn umræddra fyrirtækja hafi vísvitandi selt þennan búnað til Írans.

Talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna sagði CNN að verið væri að skoða leiðir til að koma höggi á drónaframleiðslu Írans. Meðal annars væri verið að skoða hertar refsiaðgerðir og að ræða við forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem framleiða hluti sem notaðir eru til framleiðslunnar.

Vandamálið snýr meðal annars að því að Rússar og Íranir eiga auðvelt með að stofna skúffufyrirtæki sem notuð eru til að kaupa vörur og tækni sem þeir eiga ekki að geta keypt vegna refsiaðgerða og viðskiptaþvingana.

Sérfræðingar segja erfitt að vakta þessi viðskipti.

Kalla eftir vopnahléi

Kirill fyrsti, æðstiklerkur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, kallaði í morgun eftir jólavopnahléi í Úkraínu. Það ætti að gilda frá hádegi á morgun, 6. janúar, til miðnættis 7. janúar, svo hermenn gætu haldið upp á jólin.

Kirill hefur verið ötull stuðningsmaður innrásarinnar í Úkraínu og hefur meðal annars haldið því fram að syndir þeirra hermanna sem deyja í Úkraínu séu afmáðar.

Stuðningur Kirill við innrásina hefur leitt til deilna innan rússnesku rétttrúanaðarkirkjunnar.

Ráðamenn í Úkraínu hafa ekki tekið vel í ummæli æðstaklerksins. Mykhailo Podolyak, ráðgjafi Selenskís, sagði til að mynda í tísti að rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefði kallað eftir þjóðarmorði í Úkraínu og kalli enn eftir frekari hervæðingu Rússlands.

Yfirlýsing um jólavopnahlé væri innantómur áróður.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, ræddi við Pútín í síma í morgun. Í því símtali sagði Erdogan að koma ætti á vopnahléi svo hægt væri að finna „sanngjarna lausn“ á stríðinu.

Samkvæmt RIA fréttaveitunni sagðist Pútín tilbúinn til viðræðna við Úkraínumenn, ef þeir sætti sig við að Rússar innlimi fjögur héruð Úkraínu. Það er eitthvað sem Úkraínumenn segjast ekki sætta sig við en Rússar stjórna ekki einu af héruðunum fjórum að fullu að svo stöddu.

Úkraínumenn segja að sanngjörn lausn á stríðinu feli í sér sigur Úkraínu og frelsun allra héraða sem Rússar hafa hernumið í Úkraínu. Það væri eina leiðin til að binda enda á stríðið, annars myndu Rússar eingöngu byggja her sinn upp að nýju og gera aðra innrás eftir nokkur ár.

Ríkisstjórn Selenskís átti í viðræðum við Rússa í upphafi innrásarinnar og forsetinn sagðist tilbúinn til málamyndanna. Það breyttist þó þegar ódæði rússneskra hermanna í Bucha og víðar komu í ljós.

Kynferðislegt ofbeldi víða

Úkraínumenn segjast hafa fundið ummerki stríðsglæpa á öllum þeim svæðum sem Rússar hafi verið reknir frá. Rússneskir hermenn eru sagðir hafa beitt ítrekað úkraínskar konur, menn og jafnvel börn kynferðislegu ofbeldi og hafa þessar ásakanir meðal annars komið frá Sameinuðu þjóðunum.

Rannsakendur hafa unnið hörðum höndum að því að safna upplýsingum um ofbeldi sem þetta en í frétt New York Times segir að fórnarlömb rússneskra hermanna séu allt frá því að vera áttatíu ára gömul og fjögurra ára. Svo ung stúlka hafi verið þvinguð til að hafa munnmök við rússneskan hermann.

Sjá einnig: Pyntingar á pyntingar ofan

Iryna Didenko, sem er yfir kynferðisbrotarannsóknum ríkissaksóknara Úkraínu, segir 154 rannsóknir standa yfir. Raunverulegur fjöldi kynferðisbrota rússneskra hermanna í Úkraínu sé þó líklegast mun hærri.

Sjá einnig: 75 ára kona barin, skorin og nauðgað

Fórnarlömb nauðgana verða fyrir ákveðnum fordómum í íhaldssömum samfélögum Úkraínu og sérfræðingar segja fórnarlömb oft forðast það að segja frá nauðgunum.

Ein kona sem ræddi við blaðamenn NYT sagði frá því að þegar nágranni hennar nærri Kænugarði var skotinn til bana í upphafi innrásarinnar. Hún og eiginkona þessa nágranna hafi svo verið færð í hald Rússa þar sem þeim hafi verið nauðgað.

Konan segist enn vera lafandi hrædd um að hermennirnir snúi aftur og hún segist sömuleiðis halda sig að mestu heima vegna slúðurs nágranna hennar og fordóma í hennar garð.

Yfirmenn sagðir hafa hvatt til nauðgana

Frásagnir fórnarlamba og sérfræðingar segja sönnunargögn fyrir því að yfirmenn í rússneska hernum viti af kynferðisbrotum hermanna. Þeir hafi jafnvel hvatt til nauðgana.

Didenko sagði NYT að nauðganirnar hafi reglulega byrjað nánast samstundis og rússneskir hermenn tóku yfir bæi og byggðir. Vitni hafi lýst því hvernig yfirmenn hafi sagt hermönnum sínum að leita leiða til að „slappa af“. Þá bendi frásagnir fórnarlamba til kerfisbundinna brota Rússa þar sem fólk var handsamað og pyntað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.×