Veður

Norð­austan stormur og við­varanir

Atli Ísleifsson skrifar
Spákort fyrir klukkan 15 í dag.
Spákort fyrir klukkan 15 í dag. Veðurstofan

Veðurstofan spáir norðaustan hvassviðri eða stormi víða um land í dag og jafnvel rok á Suðausturlandi.

Vegna vindsins eru viðvaranir í gildi á sunnan- og vestanverðu landinu og má búast við skafrenningi og lélegu skyggni sem geti valdið ökumönnum erfiðleikum.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði éljagangur norðan- og austanlands en annars yfirleitt léttskýjað. Frost verður á bilinu þrjú til tólf stig og kaldast inn til landsins.

„Það dregur hægt úr vindi á morgun, norðaustan 10-18 m/s annað kvöld en enn hvassviðri eða stormur í Öræfum. Áfram él norðan og austantil en þurrt að kalla suðvestantil. Frost 0 til 5 stig.

Eftir þriðjudag og fram til föstudags er útlit fyrir hægari norðanáttir, dálítil él á norðanverðu landinu en þurrt og yfirleitt bjart sunnan heiða. Talsvert frost víða um land,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Nánar má lesa um viðvaranir Veðurstofunnar á vef Veðurstofunnar.

Gular viðvaranir eru í gildi.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Norðaustan 13-18 m/s, en 18-23 suðaustantil í fyrstu. Dregur síðan smám saman úr vindi. Éljagangur víða um land, en þurrt að kalla suðvestantil. Frost yfirleitt 0 til 5 stig.

Á miðvikudag (vetrarsólstöður): Norðaustlæg átt 8-15 og él, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Harðnandi frost.

Á fimmtudag: Norðlæg átt 5-10 og dálítil él norðan- og austanlands, en annars bjartviðri. Frost 5 til 12 stig.

Á föstudag (Þorláksmessa): Norðlæg átt og bjart að mestu en skýjað og lítilsháttar él við norður- og austurströndina, bætir í él um kvöldið. Frost 7 til 15 stig.

Á laugardag (aðfangadagur jóla): Breytileg átt, snjókoma norðan- og austantil en annars stöku él. Talsvert frost um land allt.

Á sunnudag (jóladagur): Útlit fyrir norðlæga átt og dálítil él í flestum landshlutum. Áfram mjög kalt í veðri.


Tengdar fréttir

Átta flug­ferðum af­lýst í nótt

Átta flugferðum hingað til lands hefur verið aflýst í nótt vegna veðursins sem gengur yfir, þar á meðal öllu Ameríkuflugi, ef undan er skilin flugvél Icelandair frá Newark í New York.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×