Veður

Væta í kortunum víðast hvar um verslunar­manna­helgina

Árni Sæberg skrifar
Einar Sveinbjörnsson hefur oft reynst sannspár um veðrið.
Einar Sveinbjörnsson hefur oft reynst sannspár um veðrið.

Spár gera ráð fyrir því að tvær lægðir gangi yfir landið í vikunni. Skil þeirrar fyrri ganga inn á landið seint á morgun, þriðjudag, og þeirrar síðari á föstudag, fyrsta dag stærstu ferðahelgi landsins.

„Sú lægð á að dýpka hér fyrir sunnan landið á seinnipartinn á föstudaginn. Það rignir helst frá henni og einna mest til að byrja með um suðaustan- og austanvert landið, en allt í hægum vindi á meðan hún er að dýpka,“ sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um lægðina sem kemur inn á landið í blábyrjun verslunarmannahelgi í Reykjavík síðdegis í gær.

Á laugardag sé svo spáð samfelldri úrkomu um norðan- og vestanvert landið og lægðin dragi inn í sig svo kalt loft að snjóa muni í hæstu fjöllum á þeim svæðum sem og á hálendinu.

„Suðurlandið sleppur ekki, það verður norðanátt með einhverri vætu og úrkomu. Það er nú yfirleitt á sumrin þegar eru lægðir sem eru vaxandi og fara beint yfir landið, þá sleppur enginn landshluti. Við getum ekki sagt að leiðinlega veðrið sé þarna og þá sé veður betra á hinu landshorninu,“ segir Einar.

Ekki öll von úti enn

Spurður hvort engin sól sé í kortunum um verslunarmannahelgina bendir Einar á að helgin sé löng. Hann segir að líklegt sé að létti til með norðanátt á Suðurlandi á seinni hluta laugardags eða á sunnudag. 

„Síðan er hlé frá þessu öllu saman í lok helgarinnar, bæði á sunnudag og eins á mánudag. Það er nú langt í þessa daga,“ segir hann.

Þá segir hann að ekki sé útséð um að veður verði slæmt á föstudag og laugardag. „Þetta er bara veðurspá. Það er mánudagur í dag og oft hafa nú spárnar breyst mikið á færri dögum en það,“ segir Einar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.