Erlent

Segir Bandaríkin „snúin aftur“

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði lýðræðið eiga undir högg að sækja í heiminum.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði lýðræðið eiga undir högg að sækja í heiminum. AP/Patrick Semansky

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði gesti árlegrar öryggisráðstefnu í München í dag og sagðist ætla að senda skýr skilaboð. Þau væru á þá leið að Bandaríkin væru „snúin aftur“ og að Bandaríkin myndu bæta samskipti bandamanna þeirra hinum megin við Atlantshafið.

Í ræðu sem Biden hélt eftir fjarfund hans með öðrum leiðtogum G-7 ríkjanna svokölluðu, hét hann því að Bandaríkin myndu vinna sér inn traust bandamanna sinna á nýjan leik og ítrekaði stuðning Bandaríkjanna við Atlantshafsbandalagið.

Fundur G-7 ríkjanna og öryggisráðstefnan fer að þessu sinni fram með fjarfundafyrirkomulagi. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hélt utan um fundinn sem hófst í dag en atvik þar sem Angela Merkel, kanslari Þýskalnds, gleymdi að slökkva á hljóðnema sínum vakti mikla kátínu í dag.

Í ávarpi sínu fór Biden um víðan völl og lagði línurnar varðandi utanríkisstefnu ríkisstjórnar sínar. Kom hann að mörgum málefnum eins og þeim sem varða umhverfisvernd, Úkraínu, Rússland, Íran, Kína og stríðinu í Afganistan.

Þá fór Biden yfir gæði lýðræðis og sagði gífurlega mikilvægt að standa í hárinu á þeim sem vilji grafa undan því. Varaði hann við því að lýðræði stæði frammi fyrir árásum í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar.

Lýðræðið væri nú að ganga í gegnum ákveðin tímamót og framtíð þess væri í húfi.

„Ég hef fulla trú á því að lýðræðið muni og verði að vinna. Við þurfum að sýna fólki að lýðræðið geti unnið fyrir fólk okkar í þessum breytta heimi. Það er, að minni skoðun, okkar helsta verkefni. Lýðræðið verður ekki til fyrir slysni. Við þurfum að verja það. Berjast fyrir því. Standa vörð um það. Endurnýja það. Við þurfum að sanna að það er ekki tákn fyrri tíma,“ sagði Biden meðal annars.

Upphaf ræðu Bidens má sjá í spilaranum hér að neðan.

Þegar Biden beindi orðum sínum að Rússlandi, sakaði hann Vladimír Pútín, forseta, um að reyna að vekja samstarf Evrópuríkja og Atlantshafsbandalagið. Það gerði hann svo Rússar ættu auðveldara með að ráðskast með stök ríki.

Biden sagði sömuleiðis mikilvægt að standa vörð um fullveldi Úkraínu.

Forsetinn gagnrýndi einnig ráðamenn í Kína og sagði Bandaríkin og Evrópu geta staðið í hárinu á Kína í sameiningu, án nýs kalds stríðs.

Í kjölfar ávarps Bidens sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að Evrópa væri tilbúin í nýjan kafla varðandi samstarf við Bandaríkin. Hún sagði einnig að ljúf orð Bidens væru góð og blessuð en aðgerða væri þörf.


Tengdar fréttir

Banda­ríkin nú form­legir aðilar að Parísar­sam­komu­laginu á ný

Bandaríkin urðu í dag formlegir aðilar að Parísarsamkomulaginu svokallaða á ný, en það miðar að því að draga úr losun ríkja á gróðurhúsalofttegunum til að stemma stigu við loftslagsbreytingar. 107 dagar eru frá því að Bandaríkin gengu formlega úr samstarfinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.