Enski boltinn

Michael Edwards: Maðurinn á bakvið velgengni Liverpool sem enginn veit hver er

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hér má sjá Edwards (upp í hægra horninu) fagna því þegar Liverpool vann Meistaradeild Evrópu á síðasta ári.
Hér má sjá Edwards (upp í hægra horninu) fagna því þegar Liverpool vann Meistaradeild Evrópu á síðasta ári. Vísir/Athletic

Fyrir utan hörðustu stuðningsmenn Englandsmeistara Liverpool þá kannast ef til vill ekki margir við nafnið Michael Edwards. Árangur Liverpool undanfarin ár er að mörgu leyti ákvörðunum Edwards að þakka.

Daniel Taylor og Adam Crafton hjá The Athletic fóru í saumana á uppgangi Michael Edwards og hvernig hann landaði stöðu sinni hjá ríkjandi Evrópu- og Englandsmeisturum. Er hann í dag yfirmaður knattspyrnumála hjá þessu fornfræga félagi.

Edwards spilaði stórt hlutverk í ákvörðun Liverpool að ráða Jürgen Klopp sem þjálfara á sínum tíma. Einnig á hann stóran þátt í því að félagið festi kaup á leikmönnum á borð við Mohamed Salah, Roberto Firmino, Sadio Mané, Alisson og Virgil van Dijk.

Virgil van Dijk og Jürgen Klopp.Getty/Andrew Powell

Það er meira og minna þessum leikmönnum, sem og Klopp, að þakka að 30 ára eyðimerkurgöngu Liverpool er lokið og liðið er loks orðið Englandsmeistari.

„Við eigum í góðu sambandi. Við erum ekki alltaf sammála þegar við byrjum að ræða hlutina en á endanum erum við nokkurn veginn á sömu blaðsíðu,“ sagði Klopp um samband sitt við Edwards.

Til að mynda var það Edwards sem nánast heimtaði að Liverpool myndi fjárfesta í Salah en Klopp vildi frekar kaupa hinn þýska Julian Brandt frá Bayer Leverkusen. Klopp þekkti leikmanninn frá tíma sínum með Dortmund og vissi hvað hann gæti. Þjálfarinn hafði einnig áhyggjur af því hvort Salah gæti staðið sig í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa átt erfitt uppdráttar hjá Chelsea.

Á endanum fékk Edwards sínu framgengt og Salah var keyptur fyrir tæpar 37 milljónir punda árið 2017. Það var á þeim tíma það mesta sem Liverpool hafði eytt í leikmann. Liverpool sér ekki eftir þeim kaupum í dag.

Þá má ekki gleyma Andy Robertson en Edward – eða Eddie eins og hann er kallaður – var sannfærður um að skoski bakvörðurinn myndi spila enn betur í betra liði. Hann var keyptur frá Hull City og hefur blómstrað í rauðri treyju Liverpool.

Edwards er samt sem áður vel falinn á bakvið tjöldin. Svo vel falinn að hann á ekki einu sinni sína eigin Wikipedia-síðu. 

„Hann er ekki þinn klassíski yfirmaður knattspyrnumála. Þú sérð hann sjaldan í jakkafötum og hann er mjög afslappaður, “ segir gamla brýnið Harry Redknapp. Edwards var leikgreinandi þegar ´Arry var þjálfari liðsins á sínum tíma.

Edwards lék á sínum tíma með yngri liðum og varaliði Peterborough United áður. Fékk ekki samning hjá aðalliðinu þegar hann var 18 ára og ákvað því að gerast kennari. Hann hefur þó alltaf haft mikinn áhuga á tölum og tölfræði.

Þegar það var ljóst að Liverpool væri orðið Englandsmeistari tók Tom Werner, formaður Liverpool, upp símann og sendi smáskilaboð þar sem hann óskaði fólki til hamingju með titilinn. Sá fyrsti til að fá slík skilaboð var Edwards.

Edwards, Klopp og Mike Gordon, forseti FSG, á góðri stundu.Vísir/Athletic

Þar á eftir kom Klopp en það er ljóst að Liverpool á honum mikið að þakka. Sama á við um Edwards sem var hluti af teyminu sem ákvað að ráða Þjóðverjann.

Klopp var einn af þremur þjálfurum sem Liverpool skoðaði eftir að Brendan Rodgers var látinn fara. Hinir tveir voru Eddie Howe og Carlo Ancelotti. Ferilskrá Ancelotti talar sínu máli en Edwards var ekki viss um að Ítalinn gæti unnið eftir þeim fjárhagsáætlunum og skilyrðum sem honum yrðu settar á Anfield.

Hugmyndin var sú að þjálfari liðsins myndi ekki eiga lokaorðið þegar kæmi að kaupum og sölum leikmanna, til að byrja með allavega.

Howe var á þessum tíma einn áhugaverðasti þjálfari Bretlandseyja og jafnvel var talið að hann yrði næsti landsliðsþjálfari Englands. Þá hafði Howe verið leikmaður Portsmouth þegar Edwards vann þar en það skipti litlu máli þegar loks kom að því að velja rétta manninn í starfið á Anfield. Það var ekki nóg að velja rétta manninn á hliðarlínuna heldur þurfti að velja réttu mennina á völlinn sjálfan. 

Af þeim 18 leikmönnum sem voru í leikmannahópi Liverpool í fyrsta leik liðsins undir stjórn Klopp eru aðeins þrír eftir. James Milner, Adam Lallana og Divock Origi.

Það er nær ómögulegt að koma áhrifum Edwards á umbreytingu leikmannahóps félagsins í orð. Ekki nóg með að hann hafi verið á bakvið flest þeirra frábæru kaupa sem Liverpool hefur gert þá hefur honum tekist að selja leikmenn fyrir mun meiri pening en margur hefði haldið að væri hægt.

Philippe Coutinho fór til Barcelona á 142 milljónir punda. Sá peningur var svo nýttur í að fjárfesta í Alisson og Virgil van Dijk. Síðustu púslunum í meistaraliði Klopp. Leikmenn á borð við Jordan Ibe og Brad Smith seldir fyrir samtals 21 milljón punda.

Hull City keypti Kevin Stewart – leikmann sem undirritaður hefur aldrei heyrt um - á átta milljónir eða jafn mikið og Liverpool borgaði Hull fyrir Robertson. Mamadou Sakho fór til Crystal Palace á 26 milljónir punda og markvörðurinn Danny Ward fór til Leicester City á tólf og hálfa milljón punda.

Edwards er þó ekki allra. Brendan Rodgers, forveri Klopp á Anfield, þoldi hann ekki og vildi losna við hann sem og félagaskiptanefnd félagsins sem Edwards var hluti af á sínum tíma. 

Rodgers treysti ekki dómgreind Edwards og hafði til að mynda engan áhuga á að fá Roberto Firmino til liðsins á sínum tíma. Edwards, með sitt blæti fyrir tölum, lagði tölfræðina einfaldlega á borðið og sýndi fram á að allir eiginleikar Firmino gætu nýst Liverpool. 

Edwards keyrði söluna í gegn en Rodgers vissi ekkert hvar ætti að spila framherjanum skemmtilega. Endaði hann því út á hægri væng liðsins fyrst um sinn.

Klopp hins vegar virðist treysta Edwards fyrir lífi sínu. Þeir eru meira en bara samstarfsfélagar. Skrifstofur þeirra eru beint á móti hvor annarri og þá spila þeir skvass saman í hverju hádegi.

Sama hvað gerist upp úr þessu er ljóst að Klopp verður í guðatölu hjá stuðningsmönnum Liverpool næstu áratugina ef ekki aldirnar. Hvað Edwards varðar þá virðist hann bara sáttur með að hafa áhrif á bakvið tjöldin.


Tengdar fréttir

Frumkvöðlarnir Salah og Mané

Sadio Mané og Mohamed Salah, tveir af lykilmönnum Liverpool, hafa skráð sig rækilega í sögubækurnar með því að verða Englandsmeistarar.

„Ótrúlegt afrek hjá leikmönnum mínum“

„Þetta er ótrúlegt,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri nýkrýndra Englandsmeistara Liverpool í fótbolta, eftir að titillinn var í höfn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×