Enski boltinn

Fyrsta tap Liverpool á undirbúningstímabilinu kom gegn gamla félaginu hans Klopps

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leiknum í Indiana í nótt.
Úr leiknum í Indiana í nótt. vísir/getty
Borussia Dortmund vann 3-2 sigur á Liverpool í æfingaleik í Indiana í Bandaríkjunum í nótt.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, mætti þarna félaginu sem hann gerði tvisvar sinnum að þýskum meisturum og einu sinni að bikarmeisturum.

Dortmund komst yfir strax á 3. mínútu með marki Spánverjans Pacos Alcácer. Harry Wilson, sem lék sem lánsmaður með Derby County á síðasta tímabili, jafnaði fyrir Liverpool á 35. mínútu.

Dönsku landsliðsmennirnir Thomas Delaney og Jacob Bruun Larsen komu Dortmund 3-1 með tveimur mörkum með fimm mínútna millibili snemma í seinni hálfleik.

Rhian Brewster minnkaði muninn úr vítaspyrnu þegar stundarfjórðungur var til leiksloka en nær komust Evrópumeistararnir ekki. Brewster, sem er 19 ára, hefur skorað í öllum þremur leikjum Liverpool á undirbúningstímabilinu, alls fjögur mörk.

Næsti leikur Liverpool er gegn Sevilla í Boston annað kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 21:50.


Tengdar fréttir

Allir leikir Liverpool í beinni fram að móti

Stuðningsmenn Liverpool fá að sjá nóg af leikjum liðsins á næstunni á sportstöðvum Stöðvar tvö en hér eftir verða allir leikir Liverpool á undirbúningstímabilinu sýndir í beinni útsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×