Enski boltinn

Leggja nýtt gras á leikvanginn fyrir leik Liverpool og Dortmund á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér er verið að setja náttúrulega grasið á völlinn.
Hér er verið að setja náttúrulega grasið á völlinn. Getty/Santiago Flores
Liverpool mætir Borussia Dortmund á gervigrasvelli en spilar samt ekki á gervigrasi þegar liðin mætast í æfingarleik á föstudagskvöldið.

Þetta hljómar kannski fáránlega í eyrum flestra en það er góð skýring á þessu.

Liðin hans Jürgen Klopp eru þarna að mætast en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 23.50.

Leikurinn fer fram á Notre Dame leikvanginum í Indiana sem hefur verið gervigrasvöllur frá árinu 2014. Þetta er einn frægasti leikvangur Bandaríkjanna enda að verða níræður.

Völlurinn var byggður árið 1930 og var grasvöllur í 84 ár. Hér hefur háskólalið University of Notre Dame kallaði „Fighting Irish“ spilað alla tíð.





Lið Liverpool og Borussia Dortmund eru ekki að fara að spila á gervigrasinu annað kvöld því ákveðið var að leggja nýtt gras á völlinn sérstaklega fyrir þennan æfingarleik evrópsku fótboltaliðanna.

Jarðvegur og grastorfur voru sett ofan á gervigrasið. Það hefur verið heitt í Indiana síðustu daga og það er ekki að hjálpa til en vonandi vökva menn völlinn vel.

Það væri ekki gott fyrir stuðningsmenn Liverpool að horfa upp á einn af stjörnumönnum liðsins meiðast á lausum grasvelli sem er alltaf hættan við svona grasskipti.

Fenway Sports Group, eigandi Liverpool, leigði þrjá leikvanga fyrir Ameríkuferð Evrópumeistarana en hinir leikirnir fara fram á Fenway Park í Boston og Yankee Stadium í New York.







Notre Dame leikvangurinn er risastór og tekur yfir 77 þúsund manns.Getty/Santiago Flores



Fleiri fréttir

Sjá meira


×