Enski boltinn

Klopp: Ekki hægt að keppa við City og PSG á markaðnum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Klopp hugsar vel um sinn besta mann
Klopp hugsar vel um sinn besta mann vísir/getty
Evrópumeistarar Liverpool hafa verið afar rólegir á leikmannamarkaðnum í sumar og eru margir stuðningsmenn félagsins orðnir óþreyjufullir eftir einhverjum fréttum af leikmannamálum.

Liverpool hefur fest kaup á hollenska ungstirninu Sepp Van den Berg (17 ára) frá PEC Zwolle og þá bendir allt til þess enska ungstirnið Harvey Elliott (16 ára) muni ganga til liðs við Liverpool frá Fulham á allra næstu dögum.

Ef marka má orð Jurgen Klopp, stjóra Liverpool, gæti farið svo að félagið kaupi engan þekktan leikmann í sumar en Liverpool varði miklum fjármunum í leikmannakaup á síðasta ári þar sem Alisson, Naby Keita, Fabinho og Xherdan Shaqiri voru keyptir í sumarglugganum auk þess sem Virgil van Dijk kom frá Southampton í upphafi árs.

„Við erum nokkuð rólegir yfir þessu en munum sjá hvort eitthvað kemur upp. Þetta mun ekki verða stærsti félagaskiptagluggi Liverpool. Við höfum fjárfest vel í leikmannahópnum á síðustu tveimur árum og við getum ekki eytt háum fjárhæðum á hverju ári,“ segir Klopp.

Liverpool var eina liðið sem veitti Manchester City einhverja samkeppni um enska meistaratitilinn á síðustu leiktíð en Klopp segir ekkert enskt lið geta keppt við City og PSG á leikmannamarkaðnum. Aðeins spænsku risarnir Real Madrid og Barcelona geti það.

„Fólk kallar eftir því að félög kaupi fyrir 200-300 milljónir punda á hverju ári. Það eru kannski tvö félög sem geta það. Man City og PSG geta gert það á hverju ári og eins og staðan er núna virðast Barcelona og Real Madrid líka geta það,“ segir Klopp sem sér enga ástæðu til að örvænta þrátt fyrir rólegheitin á markaðnum.

„Við erum góðir. Ég er ánægður með hópinn og allir innan félagsins eru mjög ánægðir. Við skulum sjá til hvort við styrkjum mögulega eina leikstöðu ef við finnum einhvern í hana. En það er engin pressa á okkur að gera það. Þetta snýst ekki alltaf um að kaupa nýja leikmenn,“ segir Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×