Enski boltinn

Solskjær: Messi var munurinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Solskjær á hliðarlínunni í kvöld.
Solskjær á hliðarlínunni í kvöld. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, segir að eftir góða byrjun gegn Barcelona í kvöld hafi verið á brattann að sækja.

United var tveimur mörkum undir í hálfleik eftir tvö mörk frá töframanninum Lionel Messi og Börsungar gerðu út um leikinn í síðari hálfleik.

„Ég verð að segja það að Lionel Messi er topp gæði og hann var munurinn. Eftir að staðan var 2-0 var leiknum lokið,“ sagði Solskjær í leikslok og hélt áfram að lofsyngja Messi:

„Hann er í öðrum klassa. Hann og Cristiano Ronaldo eru bestu leikmenn aldarinnar og allir eru sammála því. Messi sýndi sín gæði.“

„Við þurfum að þrá það að komast á sama stig og Barcelona. Við getum komist þangað en það er mikil vinna framundan. Ef við viljum komast aftur á staðinn sem United á raunverulega að vera á, þá þurfum við að keppa við Barcelona.“

Það er risa vika framundan fyrir United sem á leik gegn Everton á sunnudaginn áður en liðið mætir Manchester City í grannaslag í næstu viku. Liðið er í mikilli baráttu um Meistaradeildarsæti og má engin stig missa.

„Þeir voru nokkrum stigum fyrir ofan okkur í þessum tveimur leikjum. Við viljum spila þessa leiki aftur á næstu leiktíð svo það er mikilvæg vika framundan fyrir okkur. Það er enginn að fara dvelja við hvað hefði getað gerst því við þurfum að einbeita okkur að næstu viku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×