Enski boltinn

Solskjær þarf að sýna að miskunnarleysi býr á bak við barnsandlitið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það er ekki alveg jafn gaman hjá Ole Gunnar þessa dagana.
Það er ekki alveg jafn gaman hjá Ole Gunnar þessa dagana. vísir/getty
Manchester United er úr leik í Meistaradeildinni en liðið tapaði afar sannfærandi, 3-0, fyrir Barcelona á Nývangi í gærkvöldi og tapaði einvíginu samanlagt, 4-0. Eftir endurkomuna ótrúlegu gegn PSG átti United ekki séns í frábært lið Barcelona.

Ole Gunnar Solskjær hefur náð mögnuðum árangri með United-liðið síðan að hann tók við en tekið hefur að halla undan fæti síðustu vikurnar og er liðið mögulega að sýna sitt rétta sjálf.

Það vill Phil McNulty, helsti fótboltablaðamaður BBC, allvega meina en hann lætur Manchester United heyra það í umfjöllun sinni um leikinn í Katalóníu í gærkvöldi.

„Það sem að gerðist í París var kraftaverk en kraftaverk gerast ekki oft. Fótboltafræðin voru löguð í gær og þau sýndu að þetta United-lið á ekki heima í sama félagsskap og Barcelona,“ skrifar McNulty.

„Þetta er afrakstur margra slæmra ára hjá United en nú er það undir Ole Gunnar Solskjær að laga hlutina. Ole er vissulega við stýrið eins og menn syngja en vegurinn fram undan gæti verið grýttur.“

„Launmorðinginn með barnsandlitið þarf nú að sýna að miskunnarleysi býr á bak við brosið því þetta lið er ekki nógu gott til að berjast um titla,“ segir Phil McNulty.

Máli sínu til stuðnings bendir hann á að fjórir af öftustu fimm hjá United í gær voru í liðinu þegar að United tapaði fyrir Basel í desember árið 2011 eða fyrir átta árum síðan. Það tap kom í veg fyrir að United komst í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar.

„Nú þurfa Solskjær og stjórnarformaðurinn Ed Woodward að endurbyggja liðið. Woodward þarf að sanna að hann ráði við fótboltahluta félagsins,“ segir Phil McNulty.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×