Fótbolti

Skoraði á móti United í gær en gæti endað þar í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Philippe Coutinho hlustar ekki á pirraða stuðningsmenn.
Philippe Coutinho hlustar ekki á pirraða stuðningsmenn. vísir/getty

Philippe Coutinho skoraði eitt af þremur mörkum Barcelona á móti Manchester United í gærkvöldi er Spánarmeistararnir afgreiddu United auðveldlega í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Nývangi.

Brasilíumaðurinn tók því virkan þátt í því að skella United í Meistaradeildinni en vel er mögulegt að Coutinho standi uppi sem leikmaður Manchester United fyrir næstu leiktíð en framtíð hans er í mikilli óvissu hjá Barcelona.

Coutinho á ekki fast sæti í liði Börsunga og kom inn af bekknum um síðustu helgi en byrjaði báða leikina á móti Manchester United. Hann er búinn að skora ellefu mörk og leggja upp önnur fimm í 47 leikjum í öllum keppnum.

Fram kemur í spænska íþróttablaðinu Sport í dag að umboðsmenn Coutinho, Kia Joorabchian og Giuliano Bertolucci, muni á næstu dögum hitta forráðamenn Katalóníurisans og ræða framtíð brasilíska landsliðsmannsins.

Auk Manchester United er Chelsea sagt áhugasamt um að kaupa hann en líklegt þykir að Eden Hazard kveðji Stamford Bridge í sumar.

Coutinho kunni vel við sig á England þar sem að hann skoraði 54 mörk og lagði upp 45 í 201 leik fyrir Liverpool áður en hann var seldur fyrir morðfjár til Barcelona.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.