Enski boltinn

Monk: Við höfum saknað Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í bikarleiknum afdrifaríka á móti Blackburn.
Gylfi Þór Sigurðsson í bikarleiknum afdrifaríka á móti Blackburn. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson hefur loksins lokið þriggja leikja banni og má spila um helgina þegar lið hans Swansea City tekur á móti Manchester United.

Gylfi hefur ekki spilað með Swansea City síðan að hann fékk rautt spjald í bikarleik á móti Blackburn Rovers 24. janúar síðastliðinn.

Þegar Gylfi gengur inn á völlinn á laugardaginn verða liðnir 28 dagar síðan að hann spilaði með velska liðinu.

„Við höfum saknað Gylfa. Strákarnir hafa stigið fram í fjarveru hans og staðið sig vel en Gylfi hefur spilað vel fyrir okkur á tímabilinu," sagði Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea City, í viðtali við Wales Online.

„Hann var aðeins of fljótfær á móti Blackburn en hann mun berjast fyrir því að koma sér aftur í gang og fara að hjálpa liðinu. Gylfi er búinn að standa sig mjög vel og hefur fallið mjög vel inn í þetta hjá okkur," sagði Monk.

„Gylfi hefur bætt hlutum við leik sinn síðan að hann var hérna síðast og það kom mér á óvart að ég gat fengið hann síðasta sumar. Hann hefur verið frábær," sagði Monk.

„Gylfi er hungraður leikmaður, hann vinnur ótrúlega vel fyrir liðið og það er bara gott fyrir okkur að fá hann aftur til baka. Gylfi er einn af þessum leikmönnum sem geta komist eins hátt og þeir ætla sér," sagði Monk.

Gylfi Þór Sigurðsson er með 4 mörk og 8 stoðsendingar í 21 deildarleik með Swansea City á tímabilinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×