Enski boltinn

Aðeins þrír hlaupið meira en Gylfi Þór á tímabilinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hljóp og hljóp og tryggði Swansea sigur gegn Man. Utd.
Gylfi Þór Sigurðsson hljóp og hljóp og tryggði Swansea sigur gegn Man. Utd. vísir/gettu
James Milner, miðjumaður Manchester City, hefur spilað vel að undanförnu, en hann skoraði í öðrum leiknum í röð þegar meistararnir unnu Stoke, 4-1, á miðvikudaginn.

Milner hafði ekki skorað í tveimur leikjum í röð í tæpan áratug fyrir miðvikudagskvöldið, en það var ekki það eina merkilega við þann leik fyrir enska miðjumanninn.

Milner setti nýtt met í dugnaði á tímabilinu, en hann hljóp meira í þeim leik en nokkur annar hefur gert í einum leik ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Samkvæmt leikmannatölfræði EA Sports, opinberri og ítarlegri tölfræðisamantekt úrvalsdeildarinnar yfir frammistöðu leikmanna, hljóp Milner 13,56 km í sigrinum gegn Stoke.

James Milner var duglegur og skoraði.vísir/getty
Með þessari frammistöðu rétt skreið hann yfir George Boyd, leikmann Burnley, sem er að öðrum ólöstuðum duglegasti leikmaður úrvalsdeildarinnar.

Boyd átti metið á leiktíðinni þegar hann hljóp 13,55 km í leik gegn Newcastle, en þessi gríðarlega vinnusami leikmaður kemur fjórum sinnum fyrir á topp 10 listanum yfir mestu hlaupalengdirnar í einum leik á tímabilinu.

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea og íslenska landsliðsins, er í sjöunda sæti listans eftir frammistöðu sína gegn Manchester United í fyrstu umferð deildarinnar.

Fyrir utan að skora sigurmarkið í þeim leik hljóp Gylfi Þór 13,18 km, en bara George Boyd, James Milner og Tom Carroll, sem hljóp 13,47 km í leik með Swansea gegn Southampton í byrjun mánaðarins, eru fyrir ofan okkar mann.

Tíu mestu hlaupalengdir leikmanns í einum leik á tímabilinu:

James Milner, Man. City - Stoke, 13,56 km

George Boyd, Burnley - Newcastle, 13,55 km

Tom Carroll, Swansea - Southampton, 13,47 km

George Boyd, Burnley - Stoke, 13,34 km

George Boyd, Burnley - Aston Villa, 13,24 km

Gylfi Þór Sigurðsson, Swansea - Man. Utd, 13,18 km

Christian Eriksen, Tottenham - Swansea, 13,12 km

Marouane Fellaini, Man. Utd - Southampton, 13,12 km




Fleiri fréttir

Sjá meira


×