Veður

Kólnar veru­lega á fyrstu dögum ársins

Atli Ísleifsson skrifar
Gera má ráð fyrir frosti núll til átta stigum í dag.
Gera má ráð fyrir frosti núll til átta stigum í dag. Vísir/Vilhelm

Norðlægar áttir verða ríkjandi næstu daga og verða þær af og til allhvassar á austanverðu landinu með dálitlum éljum. Það verður þó yfirleitt mun hægari og bjart í öðrum landshlutum.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar segir að með þessum norðlægum áttum komi kalt loft til landsins og vegna þess kólni verulega næstu daga.

Gera má ráð fyrir norðlægri átt í dag, fimm til þrettán metrum á sekúndu þar sem hvassast verður fyrir austan.

„Bjart að mestu, en stöku él á austanverðu landinu. Kólnar í veðri, frost um mest allt land í kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Norðvestan 10-18 m/s og stöku él austantil, en dregur úr vindi síðdegis. Annars mun hægari og yfirleitt bjart. Frost 1 til 10 stig yfir daginn, kaldast inn til landsins.

Á laugardag: Breytileg átt 3-8 og bjart að mestu. Skýjað á norðanverðu landinu, en lengst af þurrt. Frost 4 til 14 stig, kaldast í innsveitum norðaustanlands.

Á sunnudag: Breytileg átt 3-8 og skýjað með köflum, en þurrt að kalla. Yfirleitt bjart sunnanlands. Áfram kalt í veðri.

Á mánudag: Austlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en stöku él á víð og dreif. Frost 0 til 12 stig yfir daginn, kaldast inn til landsins.

Á þriðjudag: Breytileg átt og skýjað með köflum. Él á norðanverðu landinu, en þurrt að mestu sunnanlands. Dregur heldur úr frosti.

Á miðvikudag: Útlit fyrir suðlæga átt með snjókomu og hlýnandi veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×