Man United átti arfaslakt tímabil en endaði tímabilið þó vel með deildarsigrum á Brighton & Hove Albion sem og Newcastle United. Þá stóð liðið uppi sem enskur bikarmeistari eftir sigur á grönnum sínum í Manchester City.
Það má færa rök fyrir því að slæmt gengi liðsins hafi ekki verið alfarið Ten Hag að kenna þar sem meiðslavandræði þess voru einfaldlega endalaus. Þá gat hann ekki styrkt hópinn að viti síðasta sumar og þeir sem komu inn voru annað hvort mikið meiddir eða andlega fjarverandi.
Eftir að tímabilinu lauk var ljóst að mikið að breytingum myndi eiga sér stað eftir innkomu Sir Jim Ratcliffe sem minnihluta eigenda. Hinir ýmsu þjálfarar hafa verið orðaðir við Man United og er næsta öruggt að félagið hafi rætt við Thomas Tuchel en hann átti arfaslakt tímabil með þýska stórveldinu Bayern München og var í kjölfarið látinn fara.
Sky Sports hefur nú greint frá því að Ten Hag sé meðvitaður um stöðu sína í Manchester og hann skilji vel að félagið hafi tekið stöðuna á öðrum þjálfurum. Það breyti því hins vegar ekki að Ten Hag vill ólmur halda áfram sem þjálfari liðsins og vonast til að vera á hliðarlínunni þegar nýtt tímabil fer af stað.
Erik ten Hag is aware of reports Manchester United have been in contact with other managers. He has always wanted to stay at United but is realistic when it comes to expectations about his future 🔴 pic.twitter.com/YwyYnYlQ6i
— Sky Sports News (@SkySportsNews) June 10, 2024
Sem stendur er alls óvíst hvort af því verður en það virðast ekki margir ákjósanlegir kostir í stöðunni. Svo er einfaldlega spurning hvort Man Utd hafi tíma í að skipta um þjálfara ef horft er í hversu mikil vinna er framundan að uppfæra leikmannahóp liðsins.