Enski boltinn

Hender­son ekki á leið til Liverpool á nýjan leik ef marka má Klopp

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp og Henderson á góðri stundu.
Klopp og Henderson á góðri stundu. EPA-EFE/Peter Powell

Miðjumaðurinn Jordan Henderson hefur fengið nóg af Sádi-Arabíu aðeins örfáum mánuðum eftir að flytja þangað. Hann er þó ekki á leið í sitt fyrrum félag Liverpool ef marka má orð Jürgen Klopp.

Henderson gekk í raðir Al-Ettifaq frá Liverpool síðasta sumar. Þar spilar hann undir stjórn annars fyrrum miðjumanns Liverpool, Steven Gerrard. Það hefur ekki gengið sem skildi og Gerrard hefur óskað eftir fleiri leikmönnum.

Þegar Henderson staðfesti að hann væri að yfirgefa Liverpool fyrir miðlungs lið í Sádi-Arabíu þá sagði hann að launin væru einfaldlega það há að þau myndu breyta lífi hans og fjölskyldu. Talið er að miðjumaðurinn sé með um 700 þúsund pund á viku eða rúmar 123 milljónir króna.

Í samningi leikmannsins kemur fram að hann þurfi ekki að borga skatt svo lengi sem hann spilar fyrir félagið í tvö ár. Þar sem hann hefur aðeins verið hjá félaginu í hálft ár er ljóst að hann þarf að greiða háa summu í skatt fari svo að hann snúi aftur til Englands.

Hinn 33 ára gamli Henderson hefur spilað fyrir Liverpool, Sunderland og Coventry á láni á Englandi. Það er ljóst að hann mun ekki snúa aftur í raðir Liverpool ef marka má orð Klopp. Sky Sports spurði út í möguleg vistaskipti miðjumannsins og sagði Klopp einfaldlega að leikmaðurinn hefði ekki hringt í sig.

Henderson á að baki 81 A-landsleik fyrir England og er hræddur um að missa sæti sitt í enska landsliðshópnum fyrir EM sem fram fer næsta sumar í Þýskalandi. Það verður því að teljast líklegt að hann muni reyna að semja við lið í ensku úrvalsdeildinni en að sama skapi er deginum ljósara að hann mun þurfa að spila fyrir aðeins brot af þeim launum sem hann er að fá í Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×