Veður

Hitinn farið yfir 25 stig í júní, júlí og ágúst

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Einar Sveinbjörnsson segir þessa mynd lýsandi fyrir heiðríkjuna á Íslandi..
Einar Sveinbjörnsson segir þessa mynd lýsandi fyrir heiðríkjuna á Íslandi.. Veðurstofan

Hitinn náði 26 stigum á Torfum í Eyjafirði í dag sem þýðir að hiti hefur farið yfir 25 stig alla sumarmánuðina þrjá. Það hefur ekki gerst oft.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

„Reiknaði með því í gær að hitinn kæmist á bestu stöðum í allt að 25 til 26 stig miðað við hitagæði loftsins og aðrar aðstæður. Það gekk eftir og hvergi hlýrra en í Torfum í Eyjafjaðarsveit í dag 25. ágúst. Þar sem hámarkshitinn mældist 26,4°C,“ skrifar hann.

Þá segir hann að hæsti hitinn í júní hafi mælst 27,9°C á Egilsstaðaflugvelli en í júlí mest 26,5°C í Hjarðarlandi í Biskupstungum. Hitinn hafi því farið yfir 25 stig í júní, júlí og ágúst. Það hafi einnig gerst sumarið 2021 en það séu aftur á móti einu sumrin frá aldamótum sem það hefur gerst.

Hann segist ekki hafa yfirlit fyrir þann tíma, en viti þó til þess að hiti hafi rofið 25 stiga múrinn í júní, júlí og ágúst „gæðasumarið“ 1939. Það árið hafi hitinn einnig náð 25 stigum í september á Lambavatni á Rauðasandi með sléttum 25°C.

„Spurning hvað komandi september býður okkur upp á?“ spyr hann svo.

Með færslunni birtir hann tunglmynd sem hann segir lýsandi: „Heiðríkja á landinu, en háskýjabakkinn nálgaðist úr vestri á hádegi. Með þessari bylgjusíun má sjá greinilega hjarnmörk stóru jöklana. Ákomusvæðin greina sig vel frá jöðunum og skriðjöklum, þar sem vetrarsnjórinn er allur bráðnaður.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×