Erlent

Heimsótti Snákaeyju eftir fimm hundruð daga stríð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, á Snákaeyju.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, á Snákaeyju.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, fór nýverið til Snákaeyju á Svartahafi þar sem hann minntist þeirra hermanna sem féllu þar í átökum við Rússa. Þá markaði hann að fimm hundruð dagar eru liðnir frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst og hét því að frelsa öll þau svæði sem Rússar hafa hernumið.

Snákaeyja naut mikillar athygli í upphafi innrásar Rússa þar sem tiltölulega fámennur hópur hermanna stóð í hárinu á Svartahafsflota Rússa. Eftir að rússneskt herskip hafði varpað sprengjum á eyjuna og skipað hermönnum þar að gefast upp svöruðu úkraínskir hermenn og sögðu Rússunum að fara í rassgat.

Svar þetta naut mikillar hylli í Úkraínu og víðar. Hermennirnir þurftu að endingu að gefast upp en voru frelsaðir í fangaskiptum. Umrætt herskip, Moskva, sökk í fyrra eftir árás Úkraínumanna.

Rússar þurftu svo að yfirgefa eyjuna síðasta sumar, vegna ítrekaðra árása Úkraínumanna á hermenn þar.

Selenskí sagði í ávarpi sem hann birti á samfélagsmiðlum í morgun að eyjan yrði aldrei aftur hernumin. Hann þakkaði einnig öllum úkraínskum hermönnum fyrir að hafa barist í þessa fimm hundruð daga.

Líklegt er að Selenskí hafi farið til eyjunnar við sólarupprás í morgun. Forsetinn var á ferð og flugi um Evrópu í vikunni, þar sem hann ræddi við þjóðarleiðtoga um aðildarumsókn Úkraínu í Atlantshafsbandalagið.

Úkraínumenn hafa engin herskip til að tala um á Svartahafi en Það gera Rússar. Herskipunum er þó haldið tiltölulega langt frá ströndum Úkraínu.


Tengdar fréttir

Biden sendir Úkraínu­mönnum klasa­sprengjur

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur samþykkt að sjá Úkraínumönnum fyrir klasasprengjum, sem eru bannaðar í flestum ríkjum heims. Aðstoðin verður veitt á grundvelli undanþáguákvæðis vegna þjóðaröryggis.

Úkraínuforseti skorar á heimsbyggðina að vakna

Forseti Úkraínu segir heimsbyggðina verða að beina athygli sinni að undirbúningi Rússa fyrir að sprengja kjarnorkuverið í Zaporizhzhia í loft upp. Aðeins athygli alþjóðasamfélagsins og vissa um viðbrögð þess geti fælt Rússa frá hryðjuverkum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×