Erlent

Biden sendir Úkraínu­mönnum klasa­sprengjur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórnvöld vestanhafs hafa legið yfir ákvörðuninni í nokkurn tíma.
Stjórnvöld vestanhafs hafa legið yfir ákvörðuninni í nokkurn tíma. Getty/Sean Rayford

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur samþykkt að sjá Úkraínumönnum fyrir klasasprengjum, sem eru bannaðar í flestum ríkjum heims. Aðstoðin verður veitt á grundvelli undanþáguákvæðis vegna þjóðaröryggis.

Klasasprengjur springa í loftinu og dreifa minni sprengjum á stóru svæði. Notkun þeirra þykir ómannúðleg og hafa yfir 120 ríki undirritað sáttmála um bann gegn notkun sprengjanna, þeirra á meðal öll ríki Atlantshafsbandalagsins utan átta.

Bandaríkjamenn, Úkraínumenn og Rússar eru ekki aðilar að sáttmálanum en Rússar eru sagðir hafa notað klasasprengjur í miklum mæli á vígvellinum í Úkraínu.

Fyrir utan það að þykja ómannúðleg þá hefur notkun sprengjanna verið gagnrýnd sökum þess hversu óhnitmiðaðar þær eru en það er vel þekkt að minni sprengjurnar springi ekki og skapi þá hættu fyrir alla þá sem fara um svæðið eftir á.

Bandaríkjaþing hefur bannað notkun klasasprengja þar sem meira en 1 prósent minni sprengjanna springa ekki samstundis. Matið fyrir þá tegund sem til stendur að senda Úkraínumönnum, M864, var 6 prósent fyrir um tveimur áratugum síðan en er núna sagt 2,35 prósent.

Á meðan ekkert undanþáguákvæði er að finna í lögunum sem bannar notkun klasasprengja þar sem meira en 1 prósent minni sprengjanna springa ekki, mun Biden grundvalla ákvörðun sína á ákvæði laga um aðstoð við erlend ríki, þar sem segir að forsetinn geti samþykkt aðstoð til handa öðru ríki jafnvel þótt hún stríði gegn ákvæðum laga, svo lengi sem þjóðaröryggi Bandaríkjanna liggur við.

Umfjöllun Washington Post.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×