Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Stjarnan 1-1 | Tvö töpuð stig hjá báðum liðum

Andri Már Eggertsson skrifar
Mathias Rosenørn, markvörður Keflavíkur.
Mathias Rosenørn, markvörður Keflavíkur. Vísir/Diego

Keflavík og Stjarnan gerðu 1-1 jafntefli í 11. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Bæði lið þurftu á sigri að halda og má segja að stig geri lítið fyrir liðin.

Eftir að hafa fengið á sig fjögur mörk gegn Fram í síðustu umferð þéttu Keflvíkingar raðirnar og voru með fimm manna varnarlínu í leik kvöldsins. Keflvíkingar voru fastir fyrir strax á fyrstu mínútu og það var augljóst að skilaboðin fyrir leikinn voru að sýna hörku.

Eftir rólegar tuttugu mínútur komust gestirnir betur inn í leikinn og fóru að þjarma að marki Keflavíkur.

Adolf Daði átti fyrsta færið þar sem hann fór illa með varnarmenn Keflavíkur áður en hann lét vaða á markið hægra megin í teignum en Mathias Brinch Rosenorn varði frá honum. Skömmu síðar fékk Emil Atlason gott færi þar sem Eggert Aron átti góða fyrirgjöf sem Emil komst í en skotið yfir markið.

Keflvíkingar lifðu sóknir Stjörnunnar af og það var markalaust þegar flautað var til hálfleiks.

Heimamenn brutu ísinn þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Sindri Snær fíflaði Guðmund Baldvin upp úr skónum og renndi síðan boltanum fyrir markið þar sem fyrirliði Keflavíkur, Magnús Þór Magnússon, skoraði af stuttu færi.

Marki undir gerði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, þrefalda breytingu. Stjarnan var í vandræðum með brjóta niður varnarmúr Keflavíkur og Jökull varð að hrista upp í hlutunum.

Guðmundur Kristjánsson var stálheppinn að fjúka ekki út af þegar tæplega þrettán mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Guðmundur keyrði Sindra Þór Guðmundsson niður sem var á sprettinum og Guðmundur var ekkert að hugsa um boltann

Eggert Aron Guðmundsson jafnaði á 81. mínútu. Daníel Laxdal átti laglega fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Emil Atlason tók boltann niður og tíaði boltann fyrir Eggert Aron sem lúðraði boltanum í markið.

Fleiri urðu mörkin ekki og leikurinn endaði með 1-1 jafntefli.

Af hverju endaði leikurinn með jafntefli?

Stjarnan fékk hættulegri færi í fyrri hálfleik en gestirnir voru allan leikinn í vandræðum með að leysa mjög vel skipulagða varnarlínu Keflavíkur. 

Keflavík spilaði betur í síðari hálfleik sem endaði með að heimamenn komust yfir en Stjarnan kom til baka og jafnaði.

Hverjir stóðu upp úr?

Keflavík breytti út af vananum og fór í fimm manna varnarlínu sem gekk mjög vel þrátt fyrir að Stjarnan hafi skorað. Gestirnir voru í vandræðum með að leysa þetta og þetta hefur sennilega komið þeim á óvart þrátt fyrir að Jökull hafi sagt annað í viðtali eftir leik.

Magnús Þór Magnússon, fyrirliði Keflavíkur, hefur lítið geta tekið þátt með Keflavík á þessu tímabili en kom í byrjunarliðið í kvöld. Magnús skoraði eina mark Keflavíkur og spilaði vel. 

Hvað gekk illa?

Guðmundur Kristjánsson átti að fjúka út af þegar hann fór heldur hraustlega í Sindra Þór sem var á sprettinum. Guðmundur var á gulu spjaldi og hefði átt að fá annað gult spjald fyrir þetta brot. 

Keflvíkingar hefðu átt að gera betur í marki Stjörnunnar þar sem Emil Atlason fékk að taka boltann niður í teignum áður en Eggert Aron þrumaði á markið. 

Hvað gerist næst?

Næst á dagskrá er landsleikjahlé. Keflavík fær Fylki í heimsókn föstudaginn 23. júní klukkan 19:15.

Stjarnan mætir Víkingi Reykjavík á Víkings-velli laugardaginn 24. júní klukkan 19:15.

„Fyrsta skipti sem við spilum með fimm manna vörn frá því ég kom til Keflavíkur“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, var brattur eftir leikVísir/Pawel Cieslikiewicz

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, var svekktur með að hafa aðeins fengið eitt stig út úr leik kvöldsins.

„Við vörðumst mjög vel í þessum leik fannst mér. Mér fannst Stjarnan ekki ná að skapa sér mikið í leiknum og varnarleikurinn var góður og í þessi 2-3 skipti sem Mathias [Brinch Rosenorn] þurfti að verja þá varði hann vel,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson og hélt áfram.

„Við þurfum að geta búið til meira sóknarlega og eigum að vera skapa meira. Við vorum að missa boltann allt of auðveldlega þegar við komust fram og þegar við náðum boltanum.“

Keflvíkingar fóru í fimm manna vörn sem þeir hafa ekki gert áður og Sigurður var ánægður með hvernig það gekk.

„Við fórum í fimm manna vörn og menn eru að venjast því kerfi en í gruninn vorum við að missa boltann of auðveldlega.“

„Ég held að við komum Stjörnunni á óvart með þessu kerfi. Ég heyrði leikmann Stjörnunnar kalla á hliðarlínunni að við værum í fimm manna vörn. Þeir bjuggust klárlega ekki við því enda var þetta í fyrsta skipti sem við spilum fimm manna vörn síðan ég kom til Keflavíkur,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira