Veður

„Vonandi er þetta síðasti dagurinn með svona skítviðri“

Árni Sæberg og Sigurður Orri Kristjánsson skrifa
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur boðar betri tíð.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur boðar betri tíð. Vísir

Von er á vonskuveðri víða um land á morgun og gular veðurviðvaranir hafa verið gefnar út fyrir Norðurland, Vestfirði og Breiðafjörð. Veðurfræðingur segist vonast til þess að morgundagurinn verði síðastur í röð illviðrisdaga.

Á morgun lýkur hvítasunnuhelginni, sem oft er kölluð fyrsta ferðahelgi sumarsins, og því má vænta að margir verði á ferð um landið. Þeir sem ferðast um Norð- og Norðvesturland mega búast við því að lenda í vondu veðri. Suðvestan hvassviðri er spáð og á Norðurlandi eystra og vestra tekur gul viðvörun gildi klukkan 15, á vestfjörðum tekur gul viðvörun gildi klukkan 14 og á Breiðafirði á hádegi.

„Það er enn þá svona hálfgert skakviðri, það er vindasamt á landinu og á morgun er útlit fyrir að það hlýni. Og um leið og það hlýnar gerist alltaf suðvestanátt. Það verður hvasst, sérstaklega um norðvestanvert landið og það eru kviður sem fylgja, ekkert miklar kviður, en kviðuveður samt,“ sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hann segir þó ekki ástæðu til þess að hætta við heimferð á morgun eftir ferðalög helgarinnar. Þó ættu þeir sem aka ökutækjum sem taka á sig mikinn vind eða með aftanívagna að íhuga að vera fyrr á ferðinni í fyrramálið.

Von á að hiti fari yfir tuttugu stig

Sem áður segir er hlýnar í veðri á morgun með tilheyrandi suðvestanátt. Sem og svo oft áður eru það Austfirðingar sem fá mesta hitann á morgun.

„Það er stroka sem fer yfir austanvert landið og ég var nú að skoða á Bliku áðan að mesti hiti gæti alveg farið í 21 gráðu þar sem best lætur, til dæmis á Héraði eða sunnanverðum Austfjörðum, seinni partinn á morgun,“ segir Einar.

Breytingar í vændum

Einar segir að veðrið á morgun verði frábrugðið því sem hefur verið undanfarið. Ekki sé von á hagli, slyddu, snjó og hálku, eða neinu slíku.

„Vonandi er þetta síðasti dagurinn með svona skítviðri eins og verið hefur hérna síðustu tíu daga og það lítur út fyrir að það séu dálítið stórar breytingar í veðrinu í vikunni,“ segir Einar að lokum.


Tengdar fréttir

Ekkert ferða­veður á morgun og hinn

Gular og appelsínugular viðvaranir eru í gildi fram eftir degi. Veðurfræðingur segir enn eina lægðina á leið til landsins en veður eigi að batna eftir helgi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.