Veður

Á­fram snjó­flóða­hætta og búist við asa­hláku austan­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Fylgst er náið með stöðunni en seinni partinn í dag er gert ráð fyrir að úrkoma verði mest orðin í formi rigningar.
Fylgst er náið með stöðunni en seinni partinn í dag er gert ráð fyrir að úrkoma verði mest orðin í formi rigningar. Vísir/Sigurjón

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Austfjörðum fram á miðjan dag og gul svo út daginn. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er enda í gildi á Austfjörðum og hættustig í Neskaupstað, Seyðisfirði og Eskifirði.

Vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofunni sagði í samtali við fréttastofu í morgun að fyrir austan sé nú rigning slydda eða snjókoma. Fylgst er náið með stöðunni en seinni partinn í dag er gert ráð fyrir að úrkoma verði mest orðin í formi rigningar. Því er búist við asahláku á svæðinu um miðjan dag í dag. Einhverri úrkomu er síðan spáð á morgun, en ekki eins mikilli og í dag.

Um veðrið á landinu segir að búist sé við austlægri átt í dag, sums staða hvassviðri eða jafnvel stormi suðaustanlands og með austurstöndinni. Lítilsháttar rigning eða slydda öðru hvoru vestantil á landinu og verður hiti á bilinu núll til tíu stig. Svalast verður í innsveitum norðaustanlands.

„Á morgun leggst hann í suðaustankalda eða -strekking. Úrkomulaust að kalla á Norðurlandi, en annars rigning með köflum og hlýnar í veðri fyrir norðan. Snýst síðan í útsynningskalda á laugardag með skúrum eða slydduéljum og kólnandi veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Suðaustan 8-15 m/s, hvassast með austurströndinni. Þurrt að kalla á Norðurlandi, annars rigning eða slydda með köflum, talsverð úrkoma á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á laugardag: Suðaustlæg átt, 5-13 m/s og skúrir eða slydduél, en rigning eða slydda suðaustanlands og á Austfjörðum fram eftir degi. Hiti 1 til 8 stig, svalast inn til landsins.

Á sunnudag: Suðvestan 8-15 m/s með skúrum eða éljum, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Kólnandi veður í bili.

Á mánudag: Gengur í hvassa austanátt með talsverðri rigningu, en sums staðar slyddu eða snjókomu fyrir norðan. Hlýnandi veður.

Á þriðjudag: Útlit fyrir hæga suðlæga eða breytilega átt með skúrum víða um land og milt veður.

Á miðvikudag: Líklega ákveðin suðvestanátt með skúrum eða éljum og heldur kólnandi veður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×