Enski boltinn

Garnacho frá næstu vikurnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Garnacho meiddist illa gegn Southampton.
Garnacho meiddist illa gegn Southampton. EPA-EFE/Adam Vaughan

Ungstirnið Alejandro Garnacho, leikmaður Manchester United, verður frá næstu vikurnar eftir að hafa orðið fyrir meiðslum í markalausu jafntefli liðsins við Southampton í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi.

Man United staðfesti meiðslin á vefsíðu sinni. Þar segir að um ökklameiðsli sé að ræða og enn sé verið að meta hversu alvarleg þau eru. Garnacho yfirgaf Old Trafford á hækjum á sunnudaginn var og það hefur verið staðfest að hann verði frá í að lágmarki nokkrar vikur.

Þetta kemur sér illa fyrir Man United en liðið er í harðri baráttu um að enda í Meistaradeildarsæti, komið með annan fótinn í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar sem og í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Garnacho, sem hefur skorað tvö mörk og gefið tvær stoðsendingar á tímabilinu, var á dögunum valinn í landsliðshóp Argentínu sem leikur tvo vináttuleiki í landsliðsglugganum síðar í þessum mánuði. Hann hefur þurft að draga sig úr hópnum vegna meiðslanna.

Næsti leikur Man United er á fimmtudaginn þegar liðið heimsækir Real Betis í síðari leik einvígisins í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Man United leiðir 4-1 eftir fyrri leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×